Ný þyrla kostar 6 milljarða

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF LIF
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF LIF mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í skýrslu sem lögð var fyrir ríkisstjórnina í morgun kom fram að gera megi ráð fyrir að ein björgunarþyrla, fullbúin björgunartækjum kosti um 6 milljarða króna.

Með samkomulagi Íslands og Noregs frá 2007 var ákveðið að löndin standi saman að undirbúningi útboðs vegna kaupa á nýjum stórum og langdrægum björgunarþyrlum, öflun þeirra, samvinnu vegna viðhalds í rekstri, þjálfun og starfsmannaskipti þannig að Norðmenn geti flogið þyrlum hér við land og Íslendingar í Noregi.  Þarfagreining liggur fyrir og er miðað við kaupa björgunarþyrlur sem geta flogið 200 sjómílur á haf út, bjargað 20 manns og flogið tilbaka til lands. Norðmenn stefna að því að kaupa 19 björgunarþyrlur sem uppfylla framangreindar björgunarkröfur og í upphafi var stefnt að því að Íslendingar keyptu 3 slíkar björgunarþyrlur.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hafa Íslendingar allt frá haustinu 2008 upplýst samstarfsaðila sína í Noregi að svo kunni að fara að endurmeta þurfi þátttöku Íslands í verkefninu vegna stöðu efnahagsmála hér á landi. Ísland hefur þó tekið þátt í undirbúningi vegna útboðsins þar með talið gerð þarfagreiningar og tímaáætlana. Það hvort Íslendingar verða með í útboðinu og þá hvernig, kann að hafa áhrif á þróun mála hjá Norðmönnum m.a. vegna samlegðaráhrifa og hagkvæmni að bjóða út fleiri þyrlur en færri til þess að lágmarka kaupverð.  

 Fram kemur í skýrslu ráðuneytisins að nú sé komið að þáttaskilum í samstarfinu og taka þurfi ákvörðun um framhald þess. Núgildandi tímaáætlun verkefnisins gerir ráð fyrir útsendingu útboðsgagna á fjórða ársfjórðungi 2011, umfjöllun tilboða og samningagerð stæði næstu tvö árin, og lyki því með kaupsamningum á fjórða ársfjórðungi 2013. Fyrstu tvær þyrlurnar yrðu sennilega afgreiddar í lok ársins 2016, en hinar á árunum 2017-2020. Almennt er gert ráð fyrir að við undirritun kaupsamnings þurfi að greiða um 20% af verði þyrlanna, en um 80% komi síðan til greiðslu við afhendingu þeirra. 

Fyrir liggur tillaga um að samstarfinu við Norðmenn verði haldið áfram, en þó þannig að keypt verði ein þyrla en ekki þrjár sem gæti komið til afhendingar á árunum 2017-2018. Jafnframt verði samið um kauprétt á tveimur til viðbótar, og verði honum síðar breytt í fasta pöntun gætu þær tvær þyrlur komið til afhendingar á árunum 2019-2020. Ríkisstjórnin frestaði að afstöðu til tillögunnar á fundi sínum í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert