„Borgarstjóri skipti sér ekkert af“

Þýska herskipið Berlin á Faxaflóa í morgun á leið til …
Þýska herskipið Berlin á Faxaflóa í morgun á leið til Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Formaður hafnarstjórnar Faxaflóahafna segir að Jón Gnarr, borgarstjóri, hafi ekkert skipt sér af því hvar þýsku herskipin, sem komu til landsins í morgun, lögðust að bryggju.

Hann segir að ástæða þess að skipin sigldu að Skarfabakka í Sundahöfn sé að eitt þeirra sé of stórt til að komast inn í gömlu höfnina.

„Þetta er misskilningur frá A til Ö og það er ekkert til í þessu,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður hafnarstjórnar Faxaflóahafna, sem rekur m.a. Reykjavíkurhöfn.

„Ástæðan fyrir því að þessi skip fara að Sundahöfn er að aðalskipið er allt of stórt til að komast inn í Reykjavíkurhöfn.“

Í frétt á visir.is segir að Jón Gnarr borgarstjóri hafi beitt sér fyrir því að herskipin hafi ekki fengið að koma inn í gömlu höfnina í Reykjavík.

„Ég veit ekki til þess  að borgarstjóri hafi haft neina skoðun á þessu,“ segir Hjálmar. „Ég hef talað við hafnarstjóra og veit að það hafa ekki komið nein tilmæli frá borgarstjóra um að það verði ekki tekið á móti skipunum í gömlu höfninni.“

Ekki náðist í Jón Gnarr við gerð þessarar fréttar.




Eitt þýsku herskipanna, sem nú liggja við Sundahöfn.
Eitt þýsku herskipanna, sem nú liggja við Sundahöfn. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka