Vill að nafn sitt verið tekið út af vefnum kortasamráð.is

Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson

Kortaþjónustan hefur fengið í hendur kvörtun Ragnars Önundarsonar til Persónuverndar, þar sem Ragnar óskar eftir því að nafn hans verði afmáð af öllum gögnum sem birt eru á vefnum Kortasamráð.is.

Í fréttatilkynningu frá Kortaþjónustunni segir að á vefnum kortasamráð.is séu birt málsgögn sem Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar til að sýna fram á ólögmætt samráð Valitors, Borgunar og Greiðsluveitunnar gegn Kortaþjónustunni í svonefndu „Kortasamráðsmáli“. Kortasamráðsmálið sé stærsta viðurkennda samkeppnislagabrot Íslandssögunnar. Ragnar hefur lagt fram sambærilega kvörtun vegna Samkeppniseftirlitsins.


„Kortaþjónustan telur sig vera í fullum rétti til að birta þessi gögn að fullu og mun senda Persónuvernd röksemdafærslu þar að lútandi innan tilskilins frests.
Ragnar Önundarson hefur í fjölmörgum viðtölum síðustu vikur haldið fram þeirri skoðun sinni að enn alvarlegra samráð bankanna á kortamarkaðnum hafi gert hann að saklausum millistjórnanda í kortasamráðsmálinu, auk forstjóra Valitors og Greiðsluveitunnar.
Samt virðist sem einu aðgerðir Ragnars eftir að þessi gögn urðu opinber snúi að því að hefta frásagnir af málinu, með kvörtun til Blaðamannafélagsins vegna umfjöllunar Kastljóss og nú kvörtun til Persónuverndar vegna birtingar gagnanna. Kortaþjónustan veltir fyrir sér hvort Ragnar ætti ekki frekar að beina kröftum sínum í að opinbera þau gögn sem hann segist hafa um stóra bankasamráðið og ráðast þar að hinni raunverulegu meinsemd heldur en að reyna að skjóta sendiboðana í málinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Kortaþjónustunni.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert