Alþingi hefur glatað trausti og virðingu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Þingmenn gerðu ýmis opinber ummæli kollega sinna að undanförnu að umtalsefni í upphaf þingfundar í dag. Sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, ljóst að Alþingi hefði glatað virðingu og trausti þorra landsmanna. 

Oddný sagði að á opnum fundum, sem þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hefðu haldið að undanförnu hefði komið skýrt fram, að fólki þætti miður hvernig hegðun og talsmáti þingmanna væri í ræðustóli þingsins. 

„Menn eru sammála um, og þykir mjög miður, að virðing fyrir þessari elstu og æðstu  stofnun landsins hefur hrakað síðustu tvö árin," sagði Oddný.  „Hverjum sem um er að kenna er ljóst að Alþingi hefur glatað trausti og virðingu þorra landsmanna. Virðingu og traust er hægt að vinna til baka en það krefst þess að við tökum höndum saman." Hvatti Oddný þingmenn til að sýna yfirvegun og virðingu fyrir skoðun annarra.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist óska eftir því að forseti Alþingis grípi til aðgerða til að tryggja að stjórnmálaumræðan komist á hærra plan.

Sigurður Kári  sagði, að stjórnmálaátökin verði að vera málefnaleg og byggjast á rökum en ekki persónulegum svívirðingum en því miður hefði sú verið raunin upp á síðkastið. „Sá munnsöfnuður, sem hefur verið viðhafður í nýlegri umræðu gengur gersamlega fram af manni og jafnast á við það versta sem sést í nafnlausum skrifum á veraldarvefnum," sagði Sigurður Kári. 

Hann sagðist varla muna eftir því að þingmenn hefðu þurft að sitja undir öðru eins og að undanförnu. Þegar þingmenn fengju tækifæri til að biðjast afsökunar gerðu þeir það með þeim hætti að biðja það kúakyn, sem þeir viku að, afsökunar.  Vísaði Sigurður Kári þarna í ummæli sem Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, lét falla á Facebook-vef sínum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti fyrstur máls á þessu í umræðu um störf þingsins í dag og sagði að þegar þingmenn kölluðu aðra þingmenn illum nöfnum, jafnvel mjög niðrandi nöfnum sem bæru vott um ákveðna fyrirlitningu, væri ekki til sóma. Þeir þingmenn, sem þannig töluðu, skulduðu félögum sínum afsökunarbeiðni eða í það minnsta skýringar.

„Það er óþolandi að verða vitni að þessu og þetta setur alla þingmenn á sama stall," sagði Gunnar Bragi. Sagði hann að forseti Alþingis og forustumenn flokkanna verði að grípa til ráðstafana vegna þessa.

Þuríður Backman, þingflokksformaður VG, að svipur Alþingis hefði breyst. Rof hefði orðið á mörgum sviðum í hruninu, það hefði orðið siðrof og mikil reiði væri ríkjandi í samfélaginu og þetta endurspeglaðist í ræðustóli Alþingis. 

„Okkur ber skylda, stjórnmálamönnum, að vera sá styrkur og fyrirmynd, sem þjóðin þarf á að halda í þeim erfiðleikum  sem hún gengur nú í gegnum. Því er mikilvægt að við vöndum bæði orðaval og ræðuhefð á Alþingi. Það hefur brugðið út af því og það er miður." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert