Samfylkingin segist ekki forðast það að nýta þjónustu aðila sem tilheyri Samtökum ferðaþjónustunnar. Samtökin sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem segir að stjórnmálaflokkar hafi að undanförnu haldið flokksþing sín í skólastofnunum og þurfi því ekki að greiða virðisaukaskatt af húsaleigunni.
„Það er ömurleg staða að stjórnmálaflokkarnir skuli vera búnir að skattleggja fyrirtækin svo harkalega að þeir verði sjálfir að forðast þjónustu þeirra,“ segja samtökin.
Samfylkingin hélt um helgina flokksstjórnarfund í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.
Flokkurinn segist hafa átt mjög góð samskipti og töluverð viðskipti við fjölmarga aðila í hótel- og veitingahúsrekstri á undanförnum mánuðum og árum. Ljóst sé að skilaboðin sem komi fram í tilkynningu Samtaka ferðaþjónustunnar eigi ekki við nokkur rök að styðjast hvað Samfylkinguna varðar.
„Ástæða er til þess að árétta að Samfylkingin hefur keypt þjónustu af fjölmörgum aðilum í hótel- og veitingahúsarekstri á undanförnum árum. Þegar fundir eru haldnir á vegum flokksins er yfirleitt fundað í félagsaðstöðu Samfylkingarfélaga en ef slíkt húsnæði er ekki til staðar þá er leitað til aðila í hótel- og veitingarekstri með fundaðstöðu eins og hægt er. Fyrst og fremst leitar Samfylkingin eftir góðu húsnæði sem hentar eðli hvers fundar fyrir sig,“ segir í fréttatilkynningu.