„Hræðileg lífsreynsla“

Kona sem varð fyrir árás 17 hunda á gamla Rockville svæðinu á suðurnesjunum í fyrradag, er með átta bitsár á fótleggjum, þar af eru sex þeirra mjög djúp. Hún hyggst kæra eiganda hundanna.

Guðrún Guðmundsdóttir var við eggjatínslu á svæðinu um hádegisbil á þriðjudaginn. „Þegar ég kom þangað, sá ég Subaru station bíl á svæðinu og helling af hundum af ýmsum stærðum og gerðum. Ég ákvað að bíða aðeins, því ég vildi ekki lenda í hundunum,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is. 

Datt ekki í hug að þeir myndu bíta mig

„Þegar ég fór síðan út úr bílnum tók einn hundurinn sig út úr stóðinu
og fór að elta mig. Þá var konan í töluverðri fjarlægð með hina hundana. Síðan komu allir hinir á eftir, mér þótti þetta óþægilegt en datt aldrei í hug að þeir myndu bíta mig,“ segir Guðrún.

„En þegar ég fann að þeir voru farnir að bíta mig, kallaði ég í konuna. Hún kallaði á hundana, án árangurs. Ég reyndi að komast í burtu, en þeir eltu mig og héldu áfram að bíta mig.“

Guðrún segist hafa sagt við konuna að hundarnir hafi bitið sig, en hún hafi ekki trúað því. „Hún neitaði að trúa því, sagði að hundarnir hefðu aldrei bitið neinn.“

Samfélagsleg skylda að kæra

Guðrún komst inn í bíl sinn og hringdi í lögreglu sem kom á staðinn og tók skýrslu af Guðrúnu og hundaeigandanum.

Í kjölfarið leitaði Guðrún læknis, þar fékk hún sprautu og bitsárin voru sótthreinsuð. Einnig er hún á pensillíni.

Árás hundanna fékk mikið á Guðrúnu. „Fyrsta sólarhringinn var ég í hálfgerðu taugaáfalli og gat ekki talað um þetta. En ég hef fengið góðan stuðning. Þetta er hræðilegasta lífsreynsla sem ég hef lent í.“

Guðrún hefur gefið ítarlega skýrslu til lögreglu og einnig rætt við 
hundaeftirlitsmann. Hún hyggst leggja fram kæru.

„Mér skilst að það sé engin reglugerð um það hversu marga hunda má eiga. Ég er síður en svo á móti hundum, ég er alvön þeim og þykir að öllu jöfnu mjög vænt um hunda. En það þarf að draga einhver mörk og mér finnst það vera samfélagsleg skylda mín að kæra þetta.“

Konan er enn með hundana

Guðrún segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda, hefði hún verið með barnabarnið sitt með sér, eins og til stóð. „Það er fullt af fólki sem fer þarna á heiðina að tína egg.“

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er málið í rannsókn. Engir hundar hafa verið teknir úr umsjá hundaeigandans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert