Núverandi mannskapur nægir ekki

Aðalsteinn Hákonarson, sviðsstjóri eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, segir að skattyfirvöld og innheimtumenn skatta; tollstjóri og sýslumenn, þurfi að bæta samstarf sín á milli til að ná meiri árangri í skattheimtu.

Þetta kemur fram í í grein eftir Aðalstein í nýju tölublaði Tíundar, fréttabréfi Ríkisskattstjóra. 

Í greininni telur Aðalsteinn upp nokkur atriði sem hafa gert skattayfirvöldum erfitt fyrir. Hann bendir til að mynda á að heimild í lögum til að skipta félögum upp í tvö eða fleiri félög beri þess merki að hafa „dottið af himnum ofan“ enda fylgi engin greinargerð með frumvarpinu. 

„Nú sýnist manni að skiptingum sé beitt í öllum mögulegum og ómögulegum tilgangi. Dæmi sjást m að eignir sem á að selja séu færðar inn í annað félag í gegnum skiptingu og félagið síðan selt í stað eignanna til skattahagræðingar. Dæmi sjást einnig um að aflahlutdeild sem á að selja sé sett inn í sér félag í gegnum skiptingu. Síðan er hún seld, söluhagnaði frestað um tvenn áramót og innan tilskilins tíma hefur félagið keypt aðra aflahlutdeild sem það getur fært niður á móti söluhagnaðinum, oft af sama félagi og það stofnaðist úr við skiptinguna.“

Aðalsteinn nefnir einnig að samrunar séu fyrirbæri sem hafi farið gjörsamlega úr böndunum hér á landi. Þeir hafi ávallt verið hugsaðir til að búa til sterkari einingu úr tveimur eða fleiri veikari einingum en hér á landi hafi á síðasta áratug flestir samrunar miðað að því að búa til veikari einingu en þá eða þær sem fyrir voru. „Þetta er sú staðreynd sem blasir við í hundraðavís þegar horft er yfir sviðið í íslensku viðskiptalífi og er án vafa einn af orsakavöldum hrunsins.“

Hann bendir einnig á að nánast allar undanþágur frá sköttum, hvort sem þær eru í þágu lögaðila eða einstaklinga, leiði oftar en ekki af sér ráðstafanir sem hafi ekki sést áður og löggjafinn hafi ekki séð fyrir. 

Aðalsteinn segir að efla verði skatteftirlit á Íslandi. „Hefðbundið skatteftirlit með núverandi mannskap hefur enga möguleika á að ráða við allt sem aflaga fer í skattaumhverfi nútímans.“

Aðalsteinn Hákonarson.
Aðalsteinn Hákonarson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka