Fréttaskýring: Taka aftur yfir viðhald og rekstur eigna

Lánardrottnar Álftaness þurfa að gefa verulega eftir af skuldum sveitarfélagsins, …
Lánardrottnar Álftaness þurfa að gefa verulega eftir af skuldum sveitarfélagsins, en laugin fer hvergi. mbl.is/Heiðar

Álftanes, Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög með eignaleigusamninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign, munu að öllum líkindum taka aftur yfir að öllu leyti rekstur og viðhald viðkomandi fasteigna, á borð við sundlaugar og íþróttamannvirki. Líklega gerist þetta með haustinu.

Aðeins einn starfsmaður er nú hjá Fasteign, fjármálastjórinn, en þar að auki hefur þjónusta verið keypt af fasteignafélaginu Klasa, svo starfsmaður þess mun sjá um framkvæmdastjórn. Aðrir starfsmenn eignarhaldsfélagsins hafa hætt störfum.

Kynningarfundur í gær

Í gær hélt stjórn Fasteignar kynningarfund fyrir eigendur fyrirtækisins, sem jafnframt eru leigjendur viðkomandi eigna, á hugsanlegri lausn á málefnum félagsins. Það hefur verið í verulegum kröggum frá hruni, líkt og sumir leigjendurnir, ekki síst sveitarfélagið Álftanes og Háskólinn í Reykjavík, sem leigir hús sitt við Nauthólsvík af fyrirtækinu en hefur ekki getað staðið við sínar greiðslur. Aðrir eigendur eru til dæmis Grímsnes- og Grafningshreppur, Sandgerði, Vestmanneyjabær, Vogar, Norðurþing, Fjarðabyggð og Ölfus.

Að sögn Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og stjórnarformanns Fasteignar, gengur meginhugmyndin, sem kynnt var á fundinum, út á að félagið haldi utan um greiðslur til lánardrottna, til bankanna, en sveitarfélögin taki alfarið yfir viðhald og rekstur fasteignanna. Hingað til hefur það að stórum hluta til hvílt á Fasteign. Þannig er verið að létta á ýmsum erfiðum þáttum í rekstri félagsins, en vitanlega skiptir miklu máli í þessu samhengi að lánardrottnarnir, ekki síst Íslandsbanki, munu þurfa að afskrifa talsvert af skuldum í þessu ferli.

Árni segir að meiri kynningar sé þörf á þessari leið hjá sveitarfélögunum sem hlut eiga að máli, en að reiknað sé með að niðurstaða um þetta muni liggja fyrir nú á haustmánuðum.

Fjárhaldsstjórnin starfar áfram

Samkomulag er alveg að nást um lausn á fjárhagsvandræðum Álftaness, að sögn Pálma Þórs Mássonar bæjarstjóra. Hann vill þó ekki tjá sig um hvað væntanlegt samkomulag bæjarins við lánardrottna felur í sér, en lengi hefur verið ljóst að þeir, og þá einna helst Íslandsbanki, munu þurfa að færa skuldir Álftaness talsvert niður. Það gæti hlaupið á milljörðum króna. Haraldur Líndal Haraldsson, sem situr í fjárhaldsstjórn Álftaness, segir líkur á því að starf fjárhaldsstjórnarinnar verði framlengt enn á ný. Skipun nefndarinnar hefur nú þegar verið framlengd í tvígang og nær til 1. júlí næstkomandi. Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, vill ekki tjá sig um málefni Álftaness, en segir það stefnu sjóðsins að afskrifa ekki skuldir. Sú stefna sé óbreytt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert