„Ekki góð tíðindi fyrir okkur“

Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í hlaupinu í morgun.
Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í hlaupinu í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir okkur sem eru í ferðaþjónustu,“ sagði Elín Þorgeirsdóttir sem rekur ferðaþjónustu í Hrífunesi þegar hún var spurð um áhrif þess að brúin yfir Múlakvísl er ónýt.

Elín á von á átta ferðamönnum í dag og hafa fimm þeirra þegar staðfest að þeir ætli að koma. Ferðamennirnir sem eru vestan við Múlakvísl þurfa að fara Fjallabaksleið, en það tekur 4-5 klukkutíma að aka hana og hún er aðeins fær jeppum og vel útbúnum bílum.

Elín hafði í morgun ætlað sér að fara til Selfoss til að gera stórinnkaup, en sú leið er nú lokuð nema að fara Fjallabaksleið.

Svo vel vildi til að jarðfræðingur var í gistingu á Hrífunesi þegar hlaupið byrjaði í Múlakvísl og Elín fékk því góðar og ítarlegar upplýsingar um það sem væri að gerast strax í morgun.

Elín sagði afar slæmt að brúin yfir Múlakvísl skyldi fara. Þetta hlyti að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna næstu daga og vikur. Hún sagðist hins vegar vona það besta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert