Ferjuflutningar hefjast í fyrramálið

Ferjuflutningar yfir Múlakvísl.
Ferjuflutningar yfir Múlakvísl. mbl.is/Eggert

Ákveðið hefur að hefja ferjuflutninga yfir Múlakvísla aftur kl. 9 í fyrramálið. Vegagerðin mun herða eftirlit með þessum flutningum, en hún telur að óhætt sé að halda þeim áfram.

Allir ferjuflutningar yfir Múlakvísl voru stöðvaðir í dag eftir að rúta festist í ánni og hallaðist upp í strauminn. Áin gróf frá rútunni svo að vatnið flæddi upp á þak að hluta til. Farþegar brutu sér leið út um glugga og klifruðu upp á þak rútunnar, en var síðan bjargað heilum og höldum í land.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að öflugri trukkur verði fenginn til fólksflutninganna og verður hann til staðar í fyrramálið þegar fólksflutningar hefjast kl. 09:00. Líkt og fyrr verða bílarnir fluttir á þremur vörubifreiðum.

„Fyllsta öryggis verður gætt. Fjarskipti aðila á vettvangi verða samstillt, fylgst verður stöðugt með vatnshæð og stjórn á vettvangi verður styrkt enn frekar. Reglulega verður farið yfir vaðið á jarðýtu til að tryggja öryggi eins og unnt.

Ákvörðun um þetta var tekin af Vegagerðinni nú síðdegis í samvinnu við almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra og lögregluna á Hvolsvelli,“ segir í tilkynningunni.

Í fréttatilkynningu frá Almannavörnum segir að stöðugt eftirlit verði með vatnshæðarmælum í Múlakvísl og fjarskipti aðila á vettvangi samhæfð enn frekar. Stefnt er að hafa vaðið opið daglega frá 7 til 23 svo framarlega sem aðstæður leyfa.

Í tilkynningu frá Vegerðinni segir að áætlað sé að hægt verði að opna fyrir umferð yfir bráðabirgðabrúna um miðja næstu viku.

Farþegarnir í rútunni fikruðu sig upp á þakið og komust …
Farþegarnir í rútunni fikruðu sig upp á þakið og komust þaðan yfir á vörubílspall og í land. mbl.is/Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert