Fólkinu bjargað á austurbakkann

Trukkurinn á kafi í ánni til hægri á myndinni.
Trukkurinn á kafi í ánni til hægri á myndinni. mbl.is/Jónas

Fólkinu sem var í rútunni sem festist í Múlakvísl var bjargað upp á austurbakka árinnar. Vörubíll ók út að rútunni og gekk fólkið af þaki hennar yfir á vörubílinn og eftir pallinum í land. 

„Ég horfði á rútuna keyra af stað og fara yfir. Þetta virtist ganga eðlilega þangað til hún var um eina og hálfa til tvær rútulengdir frá bakkanum austan megin. Þá stoppaði hún og fór að síga á hliðina mjög hratt, hallaði upp í strauminn, og gróf greinilega hratt undan henni,“ sagði Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is sem var við Múlakvísl.

Hann sagði að fljótlega hafi farþegarnir úr rútunni farið að tínast upp á toppinn á henni. Á skammri stundu voru um 30 manns komin upp á þak rútunnar.

„Það dreif strax að veghefil og stóra ýtu sem komu austan að. Þeir voru mjög snöggir að bregðast við. Svo óku þeir vörubíl austan að og að framenda rútunnar. Fólkið fór af þakinu á rútunni og upp á þakið á vörubílnum og þaðan niður á pallinn á vörubílnum og þar var annar bíll sem tók það í land.“

Björgunin gekk tiltölulega greiðlega. Óskar sagði greinilegt að þarna hafi ekki mátt muna miklu að illa færi. Rútan hélt áfram að halla meira og meira upp í strauminn. Vatn var komið upp á miðjar rúður og rúmlega það þar sem hún lá upp í strauminn.

Var brugðið

„Ég sá hana allt í einu fasta,“ sagði Þorsteinn Þorgeirsson, flotastjóri hjá AVIS og Budget, sem hefur verið við Múlakvísl. Hann sagði að áin hafi breyst hratt. Þorsteinn sagði að þetta hafi ekki litið vel út séð frá vesturbakkanum.

Hann sagði að mönnum hafi verið brugðið við að rútan festist. Þeir hafi ekki átt von á þessu en sem betur fer hafi þetta farið vel.

Farþegarnir í rútunni tóku þessu ýmist létt eða var illa brugðið, að sögn bílstjóra sem kom vestur yfir ána.  Sjúkrabílar voru komnir á vesturbakka Múlakvíslar. Flutningum bíla yfir kvíslina á vörubílum var hætt þegar rútan festist.

Ýta var að gera garð í ánni ofan við rútuna til að bægja straumnum frá og aðgerðir hafnar til að bjarga bílnum úr ánni. 

Ekki er ljóst hvað olli því að rútan festist. Athygli vakti hjá viðstöddum að rútan fór aðra leið en vörubílarnir sem ferjuðu bíla yfir ána. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert