Tap ferðaþjónustunnar verulegt

Bílar ferjaðir yfir Múlakvísl
Bílar ferjaðir yfir Múlakvísl mbl.is/Golli

Tjón ferðaþjónustunnar vegna rofs á Hringveginum um Múlakvísl nemur væntanlega hundruðum milljóna, samkvæmt frétt á vef Úr ríki Vatnajökuls. Er útreikningurinn byggður á útreikningum Háskólaseturs Háskóla Íslands.

Í samantekt sem Þorvarður Árnason, forstöðumaður setursins hefur tekið saman segir:

,,Bein áhrif af lokun hringvegarins koma annars vegar fram í fækkun á gistinóttum ferðamanna innan svæðisins og hins vegar í minni umferð dagsferðamanna og annarra sem eiga leið um svæðið án þess að gista. Ekki eru til opinber viðmið fyrir útgjöld ferðamanna af ólíkum toga, hvorki þeirra sem gista né hinna sem gista ekki. Þá liggja heldur ekki fyrir nákvæmar tölur um fjölda dagsferðamanna. Út frá þeim upplýsingum sem þó eru fyrirliggjandi má samt sem áður áætla að heildarútgjöld þeirra ferðamanna sem reikna mátti með í gistingu í júlímánuði 2011 hefðu numið um 810 mkr, ef rof hringvegarins hefði ekki komið til, og að útgjöld dagferðamanna hefðu orðið um 190 mkr til viðbótar.

Samanlögð heildarútgjöld ferðamanna á Hornafirði í júlí 2011 hefðu skv. ofangreindu orðið um 1.000 mkr. Á þessari stundu er erfitt að áætla samdráttinn í komum ferðamanna vegna lokun hringsvegarins, fyrst og fremst þar sem ekki er á þessu stigi ljóst hversu lengi lokunin mun vara. Stærðargráða áhrifanna er samt sem áður skýr: Fækkun um 10% í komum ferðamanna í júlí myndi þannig leiða til 100 mkr tekjuskerðingar fyrir ferðaþjónustuaðila og önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu, fækkun um 30% þýddi 300 mkr tekjumissi en fækkun um 50% 500 mkr tekjumissi.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að gisting í júlí nemur að jafnaði hátt í 40% af heildargistingu hvers árs hjá þeim aðilum sem selja gistingu í sveitarfélaginu. Verulegur samdráttur í komum ferðamanna á þessum árstíma hefði því mjög alvarleg áhrif á þessi fyrirtæki, ekki síst þau sem minni eru. Helmings tekjumissir í júlí gæti þannig leitt til þess að ársinnkoman hjá slíku fyrirtæki rýrnaði um fimmtung.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert