Afkomandi tveggja forsætisráðherra

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson mbl.is

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður er afkomandi tveggja forsætisráðherra. Hann hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum en þetta er í annað sinn sem hann segir sig úr flokknum.

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var eitt sinn spurður að því hvort hann ætti von á því að eitthvað af börnum hans færi út í póliítík. Hann sagðist ekki eiga von á því, en bætti svo við eftir nokkra umhugsun, að það gæti þó verið að sá yngsti, Guðmundur, myndi reyna fyrir sér í stjórnmálum. Guðmundur var þá um fermingu.

Steingrímur var forsætisráðherra 1983-1987 og aftur 1988-1991. Hermann, faðir hans og afi Guðmundar, var forsætisráðherra 1934-1942 og aftur 1956-1958. Báðir gegndu þeir öðrum ráðherraembættum á löngum stjórnmálaferli.

Guðmundur tók þátt í starfi Framsóknarflokksins meðan faðir hans stýrði flokknum. Hann átti þátt í að góður vinur hans, Dagur B. Eggertsson, skrifaði ævisögu Steingríms sem kom út í þremur bindum á árunum 1998-2000. Eftir að Dagur hóf þátttöku í stjórnmálum ákvað Guðmundur að ganga til liðs við Samfylkinguna. Hann var aðstoðarmaður Dags þegar Dagur var borgarstjóri haustið 2007. Guðmundur tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2007 og var varaþingmaður flokksins. Hann gekk hins vegar úr flokknum og í Framsóknarflokkinn fyrir alþingiskosningarnar 2009 og náði kjöri sem annar þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Bæði faðir hans og afi voru á sínum tíma þingmenn Vestfjarðakjördæmis.

Guðmundur hefur boðað að hann ætli á morgun að útskýra hvers vegna hann hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum. Hann sagði einnig við fjölmiðla í kvöld að hann langaði til að stofna nýjan frjálslyndan miðjuflokk.

Steingrímur Hermannsson.
Steingrímur Hermannsson.
Hermann Jónasson
Hermann Jónasson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert