Forsetinn fundar með Kínverjum

Wang Gang, varaforseti kínverska þingsins, í heimsókn á Alþingi í …
Wang Gang, varaforseti kínverska þingsins, í heimsókn á Alþingi í dag. mbl.is/Sigríður Þorsteinsdóttir

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók í dag á móti sendinefnd frá kínverska þinginu. Var meðal annars rætt um möguleika á samvinnu í háskólastarfi og á sviði jarðhitarannsókna en nefndin er hér í boði Alþingis. Þá var vikið að nýjum viðhorfum til lýðræðisþróunar á nýrri öld.

Forseti Íslands hefur lengi ræktað tengsl við þetta fjölmennasta ríki heims og má nefna að fyrir nokkrum árum var Ólafur Ragnar í hópi fárra þjóðarleiðtoga sem boðið var til fundar við Hu Jintao Kínaforseta í Peking það árið.

Er fundi forsetans og nefndarinnar lýst svo á vef forsetaembættisins:

„Rætt var um vaxandi samvinnu Íslands og Kína, m.a. á sviði jarðhitanýtingar, jökla- og loftslagsrannsókna, viðvarana vegna jarðskjálfta, menningar, menntunar og viðskipta. Þá nefndi forseti nauðsyn þess að þróun lýðræðis taki mið af vilja fólksins sem í krafti upplýsingatækni geti verið þátttakandi í ákvörðunum ásamt kjörnum fulltrúum á þjóðþingum.

Fulltrúar kínverskra háskóla hefðu og lýst áhuga á samvinnu við íslenska fræðasamfélagið varðandi rannsóknir á þróun mannréttinda. Hin nýja öld kallaði á ný viðhorf og aukna samvinnu varðandi þróun lýðræðis.“

Sendinefndin á Alþingi í morgun

Áður en varaforseti kínverska þingsins, Wang Gang, fundaði ásamt sendinefnd með forseta Íslands á Bessastöðum heimsótti hann Alþingi í morgun og átti fund með forsætisnefnd þingsins. Skoðaði hann húsakynni Alþingis í fylgd Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert