Styrmir: Forsetinn hyggur á endurkjör

Styrmir Gunnarsson skrifar daglega um íslensk stjórnmál á vef Evrópuvaktarinnar.
Styrmir Gunnarsson skrifar daglega um íslensk stjórnmál á vef Evrópuvaktarinnar. Ragnar Axelsson

„Það er augljóst að Ólafur Ragnar vill vera forseti áfram. Hann telur vænlegasta kostinn til þess að berja svo á fyrri samherjum sínum í Alþýðubandalaginu að hann hljóti vinsældir út á það meðal Sjálfstæðismanna og nái endurkjöri út á stuðning þeirra,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, um forsetadeiluna.

Telur ritstjórinn fyrrverandi Ólaf Ragnar eiga marga stuðningsmenn vísa í Sjálfstæðisflokknum vegna framgöngu forsetans í Icesave-deilunni. Vinstri menn undirbúi hins vegar „leðjuslag“ gegn forsetanum, kjósi hann á annað borð að bjóða sig fram næsta vor.

Fram kom á vefmiðlum í gær að forsetinn hefði fest kaup á einbýlishúsi í Mosfellsbæ. Mætti túlka það sem vísbendingu um að forsetinn muni ekki bjóða fram krafta sína fimmta kjörtímabilið í röð.

Gamlar glæður frá Alþýðubandalaginu

Styrmir setur forsetadeiluna í sögulegt samhengi og veltir þeirri spurningu upp hvort framundan sé uppgjör hjá vinstri mönnum í íslenskum stjórnmálum. Má í þessu samhengi geta þess að Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tengdu í gær orðahnippingar forsetans og Steingríms J. Sigfússonar við átök innan Alþýðubandalagsins fyrir rúmum aldarfjórðungi.

Geta áhugasamir nálgast tímaás forsetadeilunnar hér en á hann vantar yfirlýsingu Hugins Freys Þorsteinssonar, aðstoðarmanns Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, um að bjór sé í boði til þess sem geti bent á meint viðtal við Steingrím sem forsetinn segi að hafi komið orrahríðinni af stað. En Steingrímur og forsetinn elduðu að sögn Guðna grátt silfur saman í Alþýðubandalaginu forðum daga. Þá vantar á ásinn áskorun Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, til Ólafs Ragnars í gær þar sem skorað er á forsetann að skýra orð sín. 

Komnir í hár saman

Styrmir rær á svipuð mið þegar hann skrifar á vef Evrópuvaktarinnar í morgun:

„Er framundan eitt allsherjar uppgjör vinstri manna á Íslandi í kosningum á næstu tveimur árum? Það er freistandi að ætla að svo sé. Forsetinn og ráðherrarnir í fyrstu ómenguðu vinstri stjórn Íslandssögunnar eru komnir í hár saman. Það er augljóst að Ólafur Ragnar vill vera forseti áfram. Hann telur vænlegasta kostinn til þess að berja svo á fyrri samherjum sínum í Alþýðubandalaginu að hann hljóti vinsældir út á það meðal Sjálfstæðismanna og nái endurkjöri út á stuðning þeirra.

Þetta er ekki alveg galin hugmynd hjá forsetanum. Það eru ótrúlega margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins tilbúnir til að veita honum stuðning vegna framgöngu hans í Icesave-málinu. Eftir því, sem hann skammar ráðherrana í núverandi ríkisstjórn meira fyrir aumingjaskap þeirra í Icesave-málinu er líklegt að fylgi hans í kjósendahópi Sjálfstæðisflokksins vaxi. Þetta er óneitanlega athyglisverð þróun.

Úrslitaorrustan verður háð í forsetakosningunum á næsta ári. Þá munu vinstri menn tjalda öllu til í því skyni að fella Ólaf Ragnar. Það verður svokallaður leðjuslagur. Verði þeim að góðu.

Í þingkosningunum 2013 munu Samfylking og Vinstri grænir berjast til blóðs. VG hefur miklar áhyggjur af úrslitum sveitarstjórnarkosninganna í Noregi, þar sem systurflokkur þeirra Sósialistiske venstre beið afhroð og vinkona Steingríms J. Kristín Halvorsen átti ekki annan kost en tilkynna að hún gæfi ekki kost á sér á ný, sem leiðtogi flokksins. VG telur að ástæðan fyrir fylgistapi SV sé að flokkurinn hafi verið orðinn of líkur Verkamannaflokknum. Norska dagblaðið Aftenposten segir að valdahroki ráðherra SV sé ástæðan fyrir afhroðinu.

Flokkarnir tveir munu rífast um hvor þeirra beri ábyrgðina á stöðnun í atvinnumálum á Íslandi. Þá mun koma upp á yfirborðið langvarandi gremja Samfylkingar í garð VG vegna þess, að VG hefur í raun stöðvað stóriðjuframkvæmdir á Íslandi.

Vinstri grænir munu berjast innbyrðis um það hver þeirra beri mesta ábyrgð á svikunum við kjósendur í ESB-málum. Og Steingrímur J.mun eiga í vök að verjast vegna þeirrar tvöfeldni, sem hann hefur sýnt í Magma-málum.

Og loks má búast við því að hinir útskúfuðu í Samfylkingunni, gamlir Alþýðuflokksmenn, leiti sér að nýjum vettvangi í pólitíkinni.

Á árunum 2012 og 2013 munu vinstri menn á Íslandi gera upp allar óuppgerðar sakir í sínum hópi, sem í sumum tilvikum eiga sér rætur upp úr miðri 20. öldinni. Og Ólafur Ragnar verður í miðpunkti þess uppgjörs - þar sem hann hefur alltaf verið og vill vera,“ skrifar Styrmir Gunnarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert