164 milljarðar afskrifaðir

Búið  var að færa niður lán heimilanna um 164 milljarða króna í lok ágúst, þar af 131 milljarð króna vegna endurútreiknings gengistryggðra lána sem skiptist á milli íbúðalána, samtals 92 milljarða króna og bifreiðaviðskipta, 38 milljarða króna.

Í lok ágúst höfðu 15.592 umsóknir borist fjármálafyrirtækjum og Íbúðalánasjóði um að fá eftirstöðvar fasteignaskulda færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar með hinni svokölluðu 110% leið. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Af þessum umsóknum var búið að samþykkja 8.551 umsókn í lok ágúst og nam heildarfjárhæð niðurfærslu lánanna ríflega 27 mö.kr., þar af 24 ma.kr. hjá fjármálafyrirtækjum. Áður höfðu bankar og sparisjóðir afgreitt samkvæmt gömlu 110% leiðinni 1.510 umsóknir og nam sú niðurfærsla tæplega 10 mö.kr. Kemur þetta fram í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um efnahagsstefnu sem lögð var fyrir alþingi 4. október síðastliðinn.

„Aðgerðir í skuldaaðlögun skýra að hluta þann vöxt sem greina má í einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna á þessu ári. Jókst einkaneyslan um 3,1% á fyrri hluta þessa árs og benda korta- og innflutningstölur til þess að vöxturinn hafi haldið áfram á þriðja árfjórðungi.

Ljóst er að margir samverkandi þættir  skila þessum vexti. Ofangreind niðurfærsla skulda hefur áhrif ásamt fyrirframgreiðslu séreignarsparnaðar, frystingu lána og vaxtabótum. Fyrirfram útgreiðslur séreignarsparnaðar voru 15 ma.kr. í fyrra sem jafngildir um 1% af landsframleiðslu. Reikna má með að útgreiðslan verði lítið minni í ár.

Sérstök vaxtaniðurgreiðsla var greidd út á yfirstandandi ári og verður svo einnig á árinu 2012 og hefur hún eflaust haft áhrif. Kostnaður við þá niðurgreiðslu er 12 ma.kr. Þessu til viðbótar voru kjarasamningar ríflegir og munu þeir skila 6% hækkun launa á þessu ári og nokkuð umfram verðbólguna þannig að kaupmáttur launa hefur verið vaxandi. Samið var um árlegar launahækkun á bilinu 4,2% til 5% út samningstímann og við það kann eitthvað að bætast um næstu áramót þegar endurskoðun á sér stað á kjarasamningum vegna forsenduþróunar samninganna.

Þessu til viðbótar hefur húsnæðisverð tekið að hækka sem bætir hreina eignastöðu heimila sem eiga sitt eigið húsnæði. Einnig sjást merki þess að starfandi fari nú fjölgangi og staðan á vinnumarkaðinum sé þannig aðeins að batna," segir í Morgunkorni.  

Miklar skuldir í alþjóðlegum samanburði

Þrátt fyrir niðurfærslu skulda heimilanna eru skuldir íslenskra heimila miklar í alþjóðlegum samanburði. Mestar urðu skuldirnar 127% af landsframleiðslu árið 2008. Síðan þá hafa þær lækkað og í lok mars 2011 voru þær komnar niður í 110% af landsframleiðslu sem er svipað og árið 2007 samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Ofangreind niðurfærsla skulda heimilanna upp á 164 ma. kr. nemur um 10% af landsframleiðslu ársins.

Hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum hefur einnig verið að lækka eftir að hafa náð sögulegum hæðum árið 2009. Fór það í 237% af ráðstöfunartekjum árið 2009 en er nú 213%. Þess má geta að hlutfallið var 166% í upphafi síðasta áratugar.

„Ljóst er að þessar miklu skuldir íslenskra heimila setja framtíðarhorfum um vöxt einkaneyslu og fjárfestingar heimilanna miklar skorður og í leiðinni munu þær hefta hagvöxt hér á landi á næstu árum," segir í Morgunkorni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert