Spurning um traust beinist að VG

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að Jón Bjarnason starfaði sem ráðherra í umboði stjórnarmeirihlutans þótt hann væri sem ráðherra á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

„Spurningin um traust beinist fyrst og fremst að hans eigin flokki," sagði Jóhanna eftir að Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði hana hvort hún treysti Jóni Bjarnasyni. 

„Ég sem stýri þessari ríkisstjórn geri athugasemd ef ég er ósátt við verklag einstakra ráðherra, sérstaklega að því er varðar svona stórt mál eins og  fiskveiðistjórnunarmálið, sem verður að hafa þann framgang á síðari hluta kjörtímabilsins að það sé samstaða um það á milli flokkanna og að það verði að lögum á þessu kjörtímabili eins og báðir stjórnarflokkarnir hafa  lofað," sagði Jóhanna.

Einar K. Guðfinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það jafngilti vantrausti á Jón Bjarnason að skipa sérstaka ráðherranefnd til að fjalla um endurskoðun fiskveiðistjórnunarfrumvarpsins.

Hann spurði Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, hvort hún styddi Jón Bjarnason í embætti sjávarútvegsráðherra. Svandís sagðist myndi ræða það á réttum vettvangi, í þingflokki VG, og Einar myndi sjálfsagt frétta af hennar afstöðu þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert