Í 9. sæti yfir hagvöxt í OECD

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að Ísland sé nú í 9. sæti á lista OECD yfir þjóðir sem eru með mestan hagvöxt í heiminum. Hagvöxtur í ár verði 3-3,5% og hugsanlega 4% á næsta ári.

Jóhanna sagði þetta í svari við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins. Hann gerði að umtalsefni grein sem Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon skrifuðu í Fréttablaðið sem fjallaði um árangur ríkisstjórnarinnar. Gunnar Bragi sagði greinina minna sig á söguna af keisaranum sem gekk um klæðalaus. Hann benti á að í greininni hefði ekki verið vikið einu orði að stöðu heimilanna og benti á að 60 þúsund heimili væru með neikvætt eigið fé og 50% heimila ættu í erfiðleikum með að ná endum saman.

Jóhanna sagðist ekki vilja gera lítið úr vanda margra heimila, en benti á að þessar tölur sem Gunnar Bragi vitnaði til væru frá árinu 2010 og frá þeim tíma hefði staðan batnað. Búið væri að afskrifa um 200 milljarða af skuldum heimilanna og ríkissjóður hefði lagt fram um 50 milljarða í formi niðurgreiddra vaxta og vaxtabóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert