Högnuðust um 472 milljarða

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að þrátt fyrir mikið tap lífeyrissjóðanna á innlendum banka- og fyrirtækjamarkaði hafi stærsti hluti eignanna verið í tiltölulega öruggum og dreifðum eignum. Sjóðirnir hafi á árunum 2008-2009 hagnast um 472 milljarða á þessum eignum.

Þetta kemur fram í ítarlegri grein forseta ASÍ á vefritinu Pressunni. Verkalýðshreyfingin átti ásamt samtökum atvinnurekenda frumkvæði að því að stofna lífeyrissjóðina og þessi tvö samtök skipa stjórnarmenn í flestum sjóðanna.

„Fjölmiðlar hafa og gripið á lofti að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 480 milljörðum króna árin 2008-2010 og er það vissulega skelfilega há tala,“ segir Gylfi. Mest af þessu tapi sé vegna innlendra hlutabréfa, skuldabréfa á banka og sparisjóði og fyrirtækja ásamt gjaldmiðlavarnarsamningum.

„Eins og nefndin tekur fram, er hér dregið saman þau verðbréf sem sjóðirnir töpuðu á en hinu sem þeir högnuðust á sleppt. Ef maður rýnir í skýrslu nefndarinnar um einstaka lífeyrissjóði eru þar einnig birtar sundurliðaðar upplýsingar um bæði tekjur og gjöld sjóðanna vegna fjárfestinga. Ef maður dregur þær upplýsingar saman fyrir árin 2008 og 2009 (en tap sjóðanna vegna 2010 virðist ekki mikið) kemur upp nokkuð önnur mynd af stöðunni. Staðreyndin er að þrátt fyrir mikið tap sjóðanna á innlendum banka- og fyrirtækjamarkaði var stærsti hluti eignanna í tiltölulega öruggum og dreifðum eignum. Jafnframt höfðu sjóðirnir árin þar á undan flutt um þriðjung eigna sinna erlendis til þess að verja lífeyrisréttindi launafólks ef hér yrði meiri háttar samdráttur í atvinnulífinu. Vert er að minnast afdrifa einstakra sjóða hér fyrr á árum eins og Rafha eða Lífeyrissjóð Bolungavíkur þar sem stór hluti réttinda launafólks glataðist við fall fyrirtækjanna.

Ef allir sjóðirnir eru teknir saman voru heildarfjárfestingatekjur lífeyrissjóðanna árin 2008 og 2009 – þ.e. þegar bæði er horft til fyrrgreinds taps og teknanna af öðrum eignum –neikvæðar um 8,1 milljarð króna eða 0,5% af hreinni eign til greiðslu lífeyris í árslok 2007. Þetta þýðir að á móti 480 milljarða tapi sjóðanna (sem var um 28,3% af hreinni eign) högnuðust þeir um 472 milljarða króna af öðrum eignum sínum (sem var 27,8% af hreinni eign). Í myndum hér á eftir má sjá þetta fyrir þá sjóði sem starfa innan vébanda aðildarfélaga ASÍ.“

Pistill Gylfa á Pressunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert