ESB og Noregur taki sér 90% makrílkvótans

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ásamt Mariu Damanaki, yfirmanni sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn …
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ásamt Mariu Damanaki, yfirmanni sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. mbl.is/ESB

„Það er því að okkar áliti tímabært að senda Íslandi mjög sterk pólitísk skilaboð í aðdraganda næstu viðræðna í Reykjavík þannig að Íslendingar komi að borðinu með raunhæft samningsumboð. Til þess að það hafi æskileg áhrif ættu þessi skilaboð að koma beint frá framkvæmdastjóranum sem talaði einnig fyrir hönd ráðherraráðsins.“

Þetta segir meðal annars í bréfi dagsettu í dag til Maria Damanaki, yfirmanns sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, frá Gerard van Balsfoort, formanni vinnuhóps um uppsjávarveiðar í Norður-Atlantshafi hjá Sambandi evrópskra fiskframleiðenda (e. European Association of Fish Producers Organizations), vegna makríldeilunnar.

„Í þessu sambandi styðjum við sem sjávarútvegsiðnaður Evrópusambandsins þá afstöðu sem félagar okkar í Noregi hafa tekið þar sem fram kemur að Ísland verði að minnka kröfur sínar um hlutdeild verulega áður en alvöru samningaviðræður geta haldið áfram,“ segir van Balsfoort síðan.

Í bréfinu kvartar van Balsfoort ennfremur yfir því að Íslendingar og Færeyingar haldi Evrópusambandinu og Noregi í gíslingu í makríldeilunni. Færeyingar virðist hafa dregið sig út úr samningaviðræðum en Íslendingar hafi hins vegar ekki gefið þumlung eftir. Það séu því litlar líkur að hans áliti að samningar náist í deilunni. Hann segir sjávarútveginn innan Evrópusambandsins einnig binda miklar vonir við fyrirhugaðar refsiaðgerðir sambandsins gegn Íslandi.

Að endingu hvetur van Balsfoort til þess að Evrópusambandið og Noregur ákveði einhliða makrílkvóta fyrir sínar útgerðir sem nemi 90% af ráðlögðum kvóta í stofninn. „Það væri andstætt öllum grundvallaratriðum um sanngirni ef makríliðnaðurinn innan Evrópusambandsins yrðu fyrir takmörkuðum möguleikum vegna makrílveiða á sama tíma og íslenskir og færeyskir kollegar okkar halda áfram að fá gefins mikla makrílkvóta frá eigin stjórnvöldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert