Ögmundur: Minnkum sjóðshluta lífeyriskerfisins

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

„Hafin er löngu tímabær umræða um framtíð lífeyriskerfisins. Ekki svo að skilja að hún sé ný af nálinni því áratugum saman hafa lífeyrismálin brunnið heitar á samtökum launafólks en flest önnur mál," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag.

Ögmundur segir að ef lífeyrissjóðirnir eigi að nýtast samfélaginu vel til uppbyggingar verði ríki og sveitarfélög að annast milligöngu með fjárfestingar. „Lífeyrissjóðirnir gætu lánað fjármagn til uppbyggilegra verkefna en á mjög hagstæðum kjörum. Þarna færum við að nálgast gegnumstreymishugsun sem hugmyndin var að fjarlægjast með kerfisbreytingunum 1997. Reyndar áttu þær kerfisbreytingar sér miklu lengri aðdraganda því í reynd voru það bara opinberu sjóðirnir sem voru að hluta til gegnumstreymissjóðir þegar hér var komið sögu. En hugsunin á árunum 1996 og 1997 þegar þessi mál voru til umræðu var að smám saman tækju lífeyrissjóðirnir meira og minna yfir hlutverk almannatrygginga í lífeyriskerfi landsmanna. Ég er í reynd að leggja til að þessi áform verði endurskoðuð. Sjóðshluti lífeyriskerfisins verði minnkaður og fundinn stakkur sem betur hæfir vexti og nýtir peninga okkar í meira mæli í samfélagslega þágu.“

Lokaorð Ögmundar í Morgunblaðinu í dag eru þau að síðan mætti hugsa sér að nýr Auðlindasjóður, sem nú er í burðarliðnum, fengi það sérstaka hlutverk að fjármagna almannatryggingakerfi landsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert