Formaður stjórnlagaráðs gerir alvarlegar athugasemdir

Salvör Nordal, fyrrverandi formaður stjórnlagaráðs.
Salvör Nordal, fyrrverandi formaður stjórnlagaráðs. mbl.is/Árni Sæberg

Fram koma alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð Alþingis á frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í bréfi fyrrverandi formanns ráðsins, Salvarar Nordal, til forsætisnefndar þingsins í kjölfar þess að samþykkt var á Alþingi í gær að vísa málinu til ráðsins á ný og boða síðan til þjóðaratkvæðis um frumvarpið samhliða forsetakosningum í sumar.

Til stendur að stjórnlagaráð hittist á fundi 8. - 11. mars næstkomandi til þess að fara yfir málið og gerir Salvör meðal annars alvarlegar athugasemdir við það hversu skammur sá fyrirvari er en sjálf geti hún ekki setið hann vegna annarra anna. Þá sé óskýrt hver tilgangurinn með fundinum sé, bæði hvað eigi að fjalla um á honum og hverju hann eigi að skila af sér, auk þess sem gert sé ráð fyrir of stuttum fundartíma.

Salvör gagnrýnir ennfremur að þær spurningar og tillögur frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem stjórnlagaráði sé ætlað að fjalla um á fundi sínum liggi ekki þegar fyrir en formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, hafi tjáð sér að þær muni liggja fyrir á næstu dögum.

Bréf Salvarar í heild:

„Til forsætisnefndar Alþingis

Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í dag er stjórnlagaráð boðað til fjögurra daga vinnufundar í byrjun mars. Eins og fram kom í samtali mínu við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í vikunni, get ég því miður ekki mætt til fundarins vegna annarra starfa en ég verð m.a. á fundi erlendis 8. og 9. mars þegar fundurinn er fyrirhugaður.

Ég fagna því að Alþingi vilji gefa stjórnlagaráði tækifæri til að bregðast við tillögum hennar enda sagði í skilabréfi ráðsins að fulltrúar væru reiðubúnir að koma að málum aftur síðar. Ég geri þó alvarlegar athugasemdir við það hversu fyrirvarinn er skammur og hversu óskýrt hlutverk fundarins er, bæði um hvað hann eigi að fjalla og hverju hann eigi að skila. Vert er að geta þess að ekkert samstarf var haft við stjórn stjórnlagaráðs við mótun þingtillögunnar.

Á fundinum er stjórnlagaráði ætlað „að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu, sem og um aðra þætti í frumvarpinu sem ráðinu þykir þurfa“, eins og það er orðað í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þær spurningar og tillögur sem hér er vísað til fylgja ekki breytingatillögunni og því er engan veginn hægt að gera sér grein fyrir hversu viðamikið verkefni vinnufundarins verður á þessari stundu, þegar aðeins um tvær vikur eru til stefnu. Þetta gerir skipulag og undirbúning fundarins afar erfitt. Formaður nefndarinnar hefur tjáð mér að spurningar og tillögur muni liggja fyrir á næstu dögum en það er einfaldlega ófært að þær skuli ekki liggja fyrir nú þegar.

Gert er ráð fyrir að vinnufundurinn standi í fjóra daga sem er afskaplega stuttur tími til að ræða flókin og vandasöm álitaefni stjórnskrárinnar ekki síst ef markmiðið er að stjórnlagaráð nái að skila sameiginlegum breytingatillögum eigi síðar en 12. mars, þ.e. strax að vinnufundinum loknum. Mitt mat er því það að fundinn eigi fyrst og fremst að nýta til samræðu milli stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við þá fulltrúa í stjórnlagaráði sem eiga heimangengt fremur en að kallað sé eftir breytingartillögum frá ráðinu með þessum stutta fyrirvara. Kjósi einhverjir innan stjórnlagaráðs að skila inn breytingatillögum til nefndarinnar að honum loknum geri þeir það í eigin nafni.

Virðingarfyllst,
Salvör Nordal“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert