Smíða sjálfir Vestmannaeyjaferju

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/Rax

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi í hádeginu að stofna hlutafélag um smíði og eignarhald á nýrri Vestmannaeyjaferju. Reikna má með því að kostnaðurinn við smíði og hönnun sé á bilinu 4 til 5 milljarðar og mun undirbúningur að stofnun félagsins hefjast nú strax í dag.

Auk Vestmannaeyjabæjar verður ríkinu, öðrum sveitarfélögum á áhrifasvæði Landeyjahafnar, lífeyrissjóðum og áhugasömum fjárfestum boðin aðkoma að félaginu, að því er segir í samþykkt bæjarstjórnar.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að samgöngur eru og verða eitt stærsta hagsmunamál Vestmannaeyja.  Á seinustu árum hafa mál þróast með þeim hætti að hluta úr ári eru samgöngur langt frá þörfum samfélagsins. 

„Erfiðleikar við Landeyjahöfn hafa gert það að verkum að nánast vonlaust er að nýta höfnina á því skipi sem nú er siglt á við þær aðstæður sem nú ríkja í og við höfnina.

Ein af forsendum þess að hægt yrði að taka upp siglingar í Landeyjahöfn var að ný og grunnristari ferja yrði smíðuð og nýtt til verksins.  Í kjölfarið á efnahagshruninu var fallið frá þeirri mikilvægu aðgerð. Þar með var ljóst að fyrstu árin yrðu erfið.  Við þetta bætist svo að sandburður við Landeyjahöfn hefur verið mikið meiri en vonir stóðu til og erfiðlega hefur gengið að nýta dæluskip til að halda lágmarksdýpi,“ að því er segir í greinargerð með tillögunni.

Forsendan er leigusamningur við ríkið til 10 ára hið minnsta

Samhliða smíði ferjunnar verði allt kapp lagt á að endurskoðun útreikninga á sandburði og að vinna að lausnum til að draga úr honum með ákveðnum aðgerðum. Meðal annars er til skoðunar uppbygging á rifi sem skýlir höfninni og dregur úr sandburði auk fasts dælubúnaðar.

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja telur afar mikilvægt að allt kapp verði lagt á að hratt og örugglega verði unnið að því að þróa Landeyjahöfn út úr núverandi byrjunarvanda.  Til að slíkt megi verða samþykkir bæjarstjórn að stofna hlutafélag um smíði og eignarhald á nýrri Vestmannaeyjaferju. 

Auk Vestmannaeyjabæjar verður ríkinu, öðrum sveitarfélögum á áhrifasvæði Landeyjahafnar, lífeyrissjóðum og áhugasömum fjárfestum boðin aðkoma að félaginu.  Gert er ráð fyrir því að forsenda félagsins sé leigusamningur við ríkið til amk. 10 ára sem tryggir að hluthafar fái hlutafé sitt greitt til baka á rekstrartímanum auk lágmarksávöxtunar,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert