Fólk láti vita um ferðir sínar

Egilsstaðir.
Egilsstaðir. Ómar Óskarsson

Lögreglan á Egilsstöðum vill brýna fyrir ferðafólki sem hyggur á lengri eða skemmri ferðir í umdæminu að láta vita um ferðir sínar, s.s. hvar það áætli að skilja eftir bíl sinn og þvíumlíkt. Tilmælin koma til vegna atviks sem upp kom í morgun, en þá fannst yfirgefinn bíll á hálendinu.

Bifreiðin fannst yfirgefin á stað þar sem óalgengt er að skilið sé við bíla. Lögreglumenn vissu ekkert um fólkið og voru að því komnir að hringja á björgunarsveitir til að leita. Til þess kom þó ekki því lögreglumönnum tókst að grafa upp nágranna fólksins - fólkið býr í öðrum landshluta - sem tjáði þeim að hann væri að passa hús þeirra því það væri í langri gönguferð um hálendið.

Ferðafólk er beðið að láta lögregluna á Egilsstöðum vita, hyggi það á ferðir þar sem bifreiðar eru skildar eftir á óalgengum stöðum, til þess að mál sem þessi komi ekki upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert