Líkunum var víxlað í kistulagningu

Meðan útfarar er beðið eru líkkisturnar geymdar í líkhúsi.
Meðan útfarar er beðið eru líkkisturnar geymdar í líkhúsi. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við litum þannig á að þetta væri síðasti hrekkurinn hennar ömmu,“ segir maður í Reykjavík um atvik sem fjölskylda hans lenti í fyrir nokkrum árum, þegar rangt lík var sett fram í kistulagningu ömmu hans. Maðurinn, sem ekki vill láta nafn síns getið, segir að mistökin hafi ekki orðið ljós fyrr en blæjan var tekin af andliti hennar fyrir hinstu kveðju.

Mbl.is sagði frá því fyrr í vikunni að bandarísk fjölskylda hefði höfðað mál gegn spítala og útfararstofu eftir að vitlaust lík var til sýnis í kistulagninu. Í kjölfarið barst ábending um að sambærilegt atvik hefði gerst hér á landi fyrir nokkrum árum, þegar öldruð kona var kistulögð í Reykjavík. Sonarsonur konunnar segir að þegar athöfnin sjálf var búin og „þeir nánustu búnir að gráta úr sér augun af söknuði“ hafi blæjunni verið lyft og kom þá í ljós að í kistunni lá allt önnur kona. 

„Mér fannst sjálfum að þetta væri einkennilega stórt lík sem var í kistunni. Amma var svo lítil og grönn kona og þegar við töluðum um þetta eftir á kom í ljós að fleirum fannst þetta skrýtið við fyrstu sýn en maður ýtti því bara frá sér,“ segir maðurinn. 

Líkunum var víxlað

Það var sonur konunnar sem fór fyrstur að kistunni og sá að það var ekki móðir hans sem lá þar. Eins og gefur að skilja brá fjölskyldunni talsvert við. Meðhjálparar brugðust skjótt við og færðu kistuna burt og svo leið og beið þar til rétta líkið var fært í kapelluna. „Maður sá fyrir sér að meðhjálpararnir væru úti í kirkjugarði að hamast við að grafa ömmu mína upp," segir maðurinn. Svo var þó ekki og fjölskyldan fékk að kveðja í hinsta sinn. 

Í ljós kom að önnur kistulagning var í gangi á sama tíma í næstu kapellu og hafði kistunum verið víxlað. Maðurinn veit ekki hvort fjölskyldan í næstu kapellu komst nokkurn tíma á snoðir um misskilninginn. Hann segir að fjölskylda hans hafi reiðst nokkuð við til að byrja með en síðan ákveðið að taka þessu létt. 

„Það tókst að klára þetta en það liðu örugglega svona 20 mínútur þannig að tónlistarfólkið var farið. En við töluðum um það eftir á að amma hafi líklega bara verið fegin að sleppa við sönginn. Við túlkuðum þetta þannig að þetta væri síðasti hrekkurinn hennar ömmu og hún væri örugglega þarna með okkur skellihlæjandi. Hún var mikill húmoristi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert