Forsetinn: Maðurinn er ekki vél

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum fyrr …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á blaðamannafundi á Bessastöðum fyrr á kjörtímabilinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sá galli var á gjöf Njarðar að svonefnd mekanísk hagfræði sem var í tísku á ofanverðri 20. öld áleit manninn lítið annað en tannhjól í stóru gangverki, þar sem skýra mætti mannlega hegðun að öllu leyti út frá mekanísku stærðfræðilíkani. Sú nálgun var með öllu ófullnægjandi að mati Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Ólafur Ragnar gerði þessa annmarka kenningarinnar að umtalsefni í hátíðarræðu í tilefni af ráðstefnu sem haldin var til heiðurs Þráni Eggertssyni hagfræðingi nú um helgina.

Forsetinn vék að hinum hagfræðilega rétttrúnaði sem ráðið hefði ríkjum síðustu áratugi og gerði því skóna að horfa þyrfti til fleiri fræðasviða af meiði hugvísinda við efnahagslega stefnumótun.

Gagnrýnivert og þröngt sjónarhorn

Manninn sé ekki hægt að smækka í lítið tannhjól í gangverki neyslusamfélagsins. Horfa beri til fleiri þátta í mannlegu eðli.

Íslenskt samfélag sem og breskt samfélag hafi liðið mjög fyrir þrönga hagfræðilega greiningu þar sem viðtekin skoðun var álitin sú eina rétta.

Með ræðunni heldur forsetinn áfram gagnrýni sinni á svonefnda nýfrjálshyggju en hann gerði ágalla hennar einnig að umtalsefni í annarri hátíðarræðu í tilefni af 10 ára afmæli MBA-náms við Háskóla Íslands á dögunum. Sagði mbl.is frá þeirri ræðu.

Ræðu Ólafs Ragnars um gamlan vin sinn, Þráin Eggertsson, má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert