„Þetta er að vinna vel og fagmannlega“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hér kom háttvirtur þingmaður, hvorki meira né minna en verkstjórinn í þessu máli, og sagði: Hér var vel og fagmannlega unnið. Þá vitum við hvað þetta þýðir hjá stjórnarliðum. Þetta er að vinna vel og fagmannlega. Það er að senda ekki til neins aðila, spyrja engan. Fá engin sjónarmið. Það er að vinna hlutina vel og fagmannlega,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag þegar rætt var um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarráðinu.

Hann vísaði þar til fyrri ræðu Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem brást við gagnrýni á það hvernig staðið var að málinu með því að lýsa því yfir að vel og fagmannlega hefði verið staðið að því og að hún teldi að niðurstaða þess hefði ekki orðið önnur þó haldnir hefðu verið fleiri fundir eða málið skoðað meira að öðru leyti.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins höfðu þá gagnrýnt hvernig staðið hefði verið að vinnu við þingsályktunartillöguna. Málið hefði verið keyrt áfram og ekki verið óskað eftir umsögnum neinna aðila vegna þess þegar það hefði verið til umfjöllunar í nefndum þingsins.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, beindi fyrirspurn til forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, í tvígang í umræðunni þess efnis hvort þau vinnubrögð sem viðhöfð hefðu verið í tengslum við þingsályktunartillöguna gætu talist eðlileg þingleg meðferð. Ekki kom hins vegar svar við því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert