Samningsafstaða Íslands í tveimur köflum

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Reuters

Samningsafstaða Íslands varðandi tvo kafla í viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hefur verið send framkvæmdastjórn sambandsins samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Um er að ræða annars vegar kaflann um flutningastarfsemi og frjálsa vöruflutninga hins vegar. Fram kemur að búist sé við að viðræður um kaflana hefjist síðar á þessu ári en þeir heyra báðir undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland er aðili að.

Vegna kaflans um frjálsa vöruflutninga leggur Ísland áherslu á að viðhalda reglum varðandi hámarksgildi kadmíums í áburði samkvæmt tilkynningunni. Þá leitar Ísland ennfremur eftir því að „opna fyrir samstarf við önnur ríki um markaðsleyfi fyrir lyf og fá undanþágu frá tungumálakröfum vegna fylgiseðla til að auðvelda aðgengi að lyfjum sem notuð eru í litlu magni“.

Varðandi kaflann um flutningastarfsemi koma meðal annars fram óskir Íslands um að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna í flugrekstrarumhverfi landsins ásamt því að fá að halda aðlögun vegna fjármögnunarsamningsins um flugferðaþjónustu á Norður-Atlantshafi. „Einnig er óskað eftir heimildum til að styrkja innanlandsflug, að Ísland þurfi ekki að framkvæma tilskipun um sumartímann, og farið er fram á afmarkaðar sérlausnir vegna aksturs- og hvíldartíma ökumanna.“

Fram kemur í tilkynningunni að Ísland hafi þegar samið, eða sé í samningaviðræðum, um ofangreind atriði á vettvangi EES en um þau þurfi eftir sem áður að semja sérstaklega í aðildarviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert