Skorar á ríkisstjórn að biðjast lausnar

Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur lýsir algjöru vantrausti á störf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og skorar á hana að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt þegar í stað svo að frekara tjóni verði afstýrt.

 Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur tekur heilshugar undir aðvaranir formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að stefna ríkisstjórnarinnar síðastliðin ár leiði til meira tjóns en varð af bankahruninu. Nýleg umsögn GAMMA um rammaáætlun um orkunýtingu sýnir fram á tjónið af stefnu ríkisstjórnarinnar svart á hvítu. 

„Í umsögn GAMMA, sem gerð var að beiðni atvinnuveganefndar Alþingis, er sýnt fram á að tillögur ríkisstjórnarinnar munu leiða til þess að fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi dragist saman um 270 milljarða króna á árabilinu 2012-2016.

Í umsögninni kemur fram að á því fjögurra ára tímabili sem um ræðir muni atvinnulífið verða af um 5000 ársverkum og uppsafnaður hagvöxtur verði því um 4-6% minni en annars hefði orðið.

 Þetta skýra dæmi um það beina efnahagslega tjón sem leiðir af pólitískri stefnu ríkisstjórnar vinstriflokkanna bætist við það tjón sem þegar er orðið vegna glataðra tækifæra, dugleysis ríkisstjórnarinnar gagnvart skuldugum heimilum og fyrirtækjum, glórulausra skattahækkana og skattkerfisbreytinga og fjandsamlegrar stefnu gagnvart fjárfestingum og uppbyggingu í atvinnulífinu,“ segir í tilkynningu frá stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert