Atkvæði greidd um 22 þingmál

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Hjörtur

Þingfundur á Alþingi hefst kl. 10.30 í fyrramálið, en áður en að honum kemur, eða kl. 8.30, fer fram fundur í atvinnuveganefnd þingsins þar sem fjallað verður um stjórn fiskveiða. Búast má við að töluverður tími fari í atkvæðagreiðslur en greidd verða atkvæði um 22 þingmál á morgun.

Fundurinn hefst raunar á óundirbúnum fyrirspurnartíma sem tekur að jafnaði um hálfa klukkustund. Taka þá við atkvæðagreiðslur um alls kyns mál sem eru mislangt komin.

Þegar atkvæðagreiðslum er lokið tekur við 23. þingmál; veiðigjöld. Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fyrr í dag fram álit sitt og breytingartillögur og miðað við það sem á undan er gengið er fullvíst að hart verður tekist á í þingsal. Og þó svo málin séu 34 á dagskrá er ekki gefið að umræðan um veiðigjöldin klárist á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert