Samningsafstaða Íslands í köflum 9 og 24 birt

Evrópusambandið
Evrópusambandið mbl.is/reuters

Samningsafstaða Íslands varðandi fjármálaþjónustu annars vegar og dóms- og innanríkismál hins vegar í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hefur verið birt á heimasíðunni vidraedur.is. Kemur þetta fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Samningsafstaða Íslands var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjunum eftir að um hana hafði verið fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd og ríkisstjórn.

Búist er við því að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum síðar á þessu ári.

Í samningsafstöðu Íslands í kafla 9 um frjálsa vöruflutninga kemur fram að kaflinn falli að öllu leyti undir EES-samninginn. Í samningsafstöðunni lýsir Ísland þeim endurbótum á innlendri löggjöf, stjórnsýslu og eftirliti með fjármálaþjónustu sem gerðar hafa verið í kjölfar efnahagshrunsins og leggur áherslu á að allir aðilar máls virði væntanlega niðurstöðu EFTA dómstólsins um framkvæmd tilskipunarinnar um innstæðutryggingar.

Segir ennfremur í tilkynningunni að Ísland óski eftir því að Viðlagatrygging Íslands, sem veitir tryggingu vegna tjóns af völdum náttúruhamfara, verði undanþegin ákvæðum tilskipunar um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.

Kafli 24, um dóms- og innanríkismál, heyrir ekki undir EES-samninginn en undir þennan kafla fellur m.a. Schengen samstarfið, sem Ísland hefur verið aðili að frá 2001.  Þau efni sem kaflinn nær til eru m.a. innflytjenda- og hælismál, mál sem varða landamæri og Schengen, dómstólasamstarf í einka- og sakamálum, lögreglusamvinna, barátta gegn hryðjuverkum og ávana- og fíkniefnum.

Í samningsafstöðu  Íslands kemur fram að regluverkið um dóms- og innanríkismál er að miklu leyti byggt á alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland er þegar aðili að og beitir því nú þegar. Er þar meðal annars um að ræða aðild að Lúganó-samningnum og nokkrum Haag-samningum á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar, nokkra samninga Sameinuðu þjóðanna og samninga Evrópuráðsins auk samninga sem Ísland hefur gert um aðild að ýmsum stofnunum ESB á þessu sviði.  

Í samningsafstöðunni leggur Ísland til viðbót við reglugerð ESB um fullnustu óumdeildra krafna sem gerði Íslandi kleift að neita að viðurkenna dóm í meiðyrðamáli ef um er að ræða svokallað meiðyrðamálaflakk sem hafi mikinn málvarnarkostnað í för með sér.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla. Alls hafa 15 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á síðasta ári og er samningum þegar lokið um 10 þeirra.  Alls hefur samningsafstaða í 22 köflum verið birt á síðunni vidraedur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert