Vilja bæta umhirðu í borginni

Fíflar í blóma á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur.
Fíflar í blóma á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Á borgarráðsfundi í dag lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að bæta almenna umhirðu í borginni og tryggja með því að grunnhreinsun sé ásættanleg. Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi gagnrýndi meirihlutann á fundinum:

„Það er lágmarkskrafa að sá meirihluti sem hér er við völd standi undir því einfalda verkefni að láta slá græn svæði í borginni og halda illgresi í skefjum. Ástandið er hreinlega ekki boðlegt. Borgarbúar sinna sínu nærumhverfi en borgin, sem alltaf hefur verið til fyrirmyndar, er nú farin að slugsa. Það gengur ekki og þess vegna lögðum við fram tillögu um að gert verði strax átak í þessum málum.“

Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðiflokks í borgarráði í dag:

Grassláttur og almenn umhirða á opnum grænum svæðum og við umferðargötur í borginni er langt frá því að vera viðunandi.  Augljóslega er betur að þessu staðið í nærliggjandi sveitarfélögum og nú er svo komið að víða í borginni er arfi, úr sér vaxið gras og almenn óhirða orðin svo áberandi að ásýnd borgarinnar líður verulega fyrir.  Lagt er til að þegar verði gert átak í því að koma þessum málum í betra horf, enda getur borg sem ver milljörðum í framkvæmdir og verulegum upphæðum í ýmsa þætti er lúta að almennri fegrun ekki með neinum rökum haldið því fram að til þessara brýnu mála sé ekki fjármagn.  Það er einfaldlega spurning um forgangsröðun, framkvæmd og stjórnun á þessum verkefnum og að tryggja með því að grunnhreinsun í borgarlandinu sé ásættanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert