Ýttu hvölunum út á sjó

Grindhvalir.
Grindhvalir. Ljósmynd/Elding

Hvalaskoðunarferð hvalaskoðunarskipsins Rósarinnar í morgun breyttist í björgunarleiðangur er ljóst var að grindhvalatorfa sem verið hefur við Leyni á Akranesi var á leið upp í fjöru. Talsmaður dýraverndunarsamtaka segir að björgunarafrek hafi verið unnið.

„Við fórum með gesti okkar í áttina að torfunni og síðan breyttist það í björgunaraðgerðir,“ segir Magnús Kr. Guðmundsson, skipstjóri á Rósinni, sem er á vegum fyrirtækisins Special Tours . „Við reyndum að stugga þeim frá og koma þeim lengra út á sjó. Þeir eru komnir þangað, en það er spurning hvernig þetta endar.“

Aldrei séð svo marga hvali

Að sögn Magnúsar voru tveir minni bátar komnir á staðinn til að bægja hvölunum frá landi. Hann segir hvalina enn vera inni í víkinni og að þeir virðist vera á leið lengra út á haf. „Þeir tvístruðust og eru núna í 5-6 hópum úti fyrir vitanum á Akranesi.“

Hann segir erfitt að segja til um hversu mörg dýrin séu, en þau séu líklega 100-200 talsins. „Ég hef aldrei áður séð svona marga hvali í einu.“

Þetta var björgunarafrek

Um borð í Rósinni var Sigursteinn Másson, sem er fulltrúi IFAW, Alþjóðadýraverndunarsjóðsins, og hann segir viðbrögð áhafnar Rósarinnar hafa skipt sköpum. „Þetta leit ekki vel út í byrjun, það var erfitt að ýta við þeim, þeir hreyfðu sig hægt og reyndu að komast til baka. En Rósinni tókst að ýta þeim út á dýpra svæði. Þetta var björgunarafrek.“

Hann segir að tveir smábátasjómenn frá Akranesi hafi unnið ómetanlegt verk við að bjarga hvölunum í dag. „Þeir héldu vöðunni frá því að fara beint í fjöruna og náðu að færa hana á nægilegt dýpi til að Rósin gæti athafnað sig. Allan tímann sýndu þeir mikla leikni að ýta gætilega en ákveðið við hvölunum.“

Að sögn Sigursteins er von á hvalrannsóknarskipinu Song of Whale, sem er á vegum IFAW, í höfn á Akranesi síðar í dag. Skipið mun fara á staðinn, kanna þar aðstæður og reyna að ýta við hvölunum þannig að þeir fari utar í Faxaflóann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert