Vill einfaldara og sanngjarnara skattkerfi

Pétur Blöndal, alþingismaður.
Pétur Blöndal, alþingismaður. mbl.is

„Mér finnst menn ekki nota nægilega mikið leikjafræði þegar kemur að skattlagningu. Það er að reyna að átta sig á því hvernig skattgreiðandinn eða neytandinn bregst við,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur sett fram ákveðnar hugmyndir um það hvernig halda mætti á álagningu virðisaukaskatts hér á landi þannig að fyrirkomulagið yrði einfaldara og sanngjarnara.

„Þarna sting ég uppá að skoðað verði meðal annars að allar skattaundanþágu verði til dæmis afnumdar en þær eru glettilegar margar. Ég nefni til dæmis undanþágur í laxveiði, menntakerfinu er allt saman undanþegið og heilbrigðiskerfið og ýmsir aðrir mjög stórir póstar. Markmiðið væri þá að auka jafnræðið á milli einkareksturs og opinbers reksturs sem ég tel mjög mikilvægt,“ segir Pétur.

Framlög til til að mynda mennta- og heilbrigðiskerfisins yrðu þá aukin sem nemur skattlagningunni en það þýddi einfaldara kerfi þar sem sama kerfi gilti um alla. Pétur segist vilja lækka virðisaukaskattinn úr 25,5% eins og staðan er í flestum tilfellum í dag og niður í 16,5%. Þetta yrði gert með því að lækka skattinn um 1% annan hvern mánuð. Full lækkun í 16,5% næðist þannig á 16 mánuðum.

„Þarna er ennfremur á ferðinni sú hugsun að ef menn lækka skattinn í þrepum sem eru fyrirfram ákveðin þá veit fólk að til dæmis að bílar munu lækka og þá mun neytandinn væntanlega hægja á neyslunni,“ segir Pétur. Það þýði að þeir sem eru að selja bíla þurfi þá að bjóða sérstök tilboð til þess að geta selt vöruna.

Lækkunin verður að vera umtalsverð

„Menn hafa stundum sagt að ef skattalækkunin sé lítil, kannski 1-2% eins og stundum hefur verið gert, þá fari það ekkert út í verðlagið sem er líklega rétt. Þess vegna þarf lækkunin að vera umtalsverð eins og ég sting upp á. Lækkun upp á 25,5% í 16,5%, það eru 9%. Það er umtalsverð lækkun og hún mun skila sér. Bæði í aukinni veltu og lækkun vöruverðs, lækkun vísitölu o.s.frv.,“ segir Pétur ennfremur.

Pétur segist á móti vilja hækka lægra virðisaukaskattþrepið úr 7% í 16,5%. Þær vörur séu hins vegar annars eðlis. „Þú getur til dæmis ekki geymt það að kaupa mjólk í þrjá mánuði eða flýtt þeirri neyslu. Það neyslumynstur er miklu harðara. Ég er annars aðallega að velta þessum hugmyndum upp og að hugsa þurfi mikið meira um hegðun skattgreiðandans.“

Pétur bendir á að með þessu væri kerfið allt gert miklu einfaldara og gegnsærra. Eitt fyrirkomulag gilti um alla og líkur á undanskotum minnkuðu. Bæði vegna þess að það væri erfiðara í einfaldara og gegnsærra kerfi og einnig vegna þess að lægri skattprósenta þýddi að það væri minni hvati til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert