Þingmaður kvíðir fyrir kosningavetri

Margrét Tryggvadóttir alþingismaður.
Margrét Tryggvadóttir alþingismaður. mbl.is/frikki

„Ég verð að viðurkenna að ég er með hnút í maganum vegna komandi þingveturs. Ég hef ekki mikla reynslu í þessum efnum en kosningavetur ku vera sérstakur; baráttan enn harðari þótt menn brosi allan hringinn og reyni að telja kjósendum trú um eigið ágæti. Þó er erfitt að ímynda sér að baráttan geti enn harðnað,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á heimasíðu sinni í dag og spyr síðan hvort svigrúm sé til þess „án þess að það brjótist hreinlega út hópslagsmál?“

Hún segist hingað til hafa vanist því í fyrri störfum að vera hluti af keðju sem starfaði að því að gera ákveðið verkefni að veruleika þar sem andstæðingarnir voru aðallega skortur á tíma og peningum auk keppinautanna en hún hafi kynnst öðru á Alþingi. „Á þinginu búum við hins vegar við það að fólk af holdi og blóði telur það í sínum verkahring að reyna allt hvað það getur til að skemma fyrir öðrum. Kostnaður samfélagsins og tíminn sem fer í þetta allt saman þykja eðlilegur fórnarkostnaður til að upphefja eigið egó.“

Skylda kjósenda að láta sig málin varða

Margrét segir stöðu sína nokkuð sérstaka í þessum efnum. Hún tilheyri minnsta þingflokknum sem ráði litlu þar sem hann sé ekki í stjórn. Hreyfingin vinni hins vegar lítið með „svokallaðri stjórnarandstöðu“ en ekki vegna þess að þingmenn flokksins séu sammála öllu sem ríkisstjórnin geri. Hún hafi hins vegar ekki trú á þeim vinnubrögðum sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn beiti „en hún felst að mínu mati aðallega í því að bregða fæti fyrir stjórnarflokkana, vera í prinsippinu á móti bara til að vera á móti og bíða eftir að komast sjálf að kjötkötlunum“.

Hún segir að hægt sé að ná mun meiri árangri með öðrum hætti. „Það er nefnilega hægt að hafa mikil áhrif á mál í þinginu með ábendingum, tillögum og rökstuðningi. Það er hins vegar mun meiri og krefjandi vinna en hið stanslausa niðurrif sem krefst engra sérstakra hæfileika annarra en að geta vakað fram á nætur í botnlausu málþófi,“ segir Margrét að lokum og hvetur ennfremur kjósendur til þess að fylgjast betur með störfum þingsins. Það sé skylda þeirra að láta sig málin varða.

Grein Margrétar Tryggvadóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert