Skiptar skoðanir um fyrirkomulag þingsetningar

Við þingsetninguna í fyrra.
Við þingsetninguna í fyrra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrirkomulag við setningu Alþingis, sem fram fer á morgun, verður með hefðbundnu sniði þrátt fyrir mikil mótmæli í fyrra. Skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun forsætisnefndar Alþingis en forseti Alþingis telur engu að síður að þátttaka verði með ágætum og treystir á að eggjakast endurtaki sig ekki, enda hafi slík framganga ekki verið mótmælendum til framdráttar.

Mótmælendur skutu flugeldum í loft upp, kveiktu á blysum og létu egg og ávexti dynja á þingmönnum þegar þeir gengu á milli dómkirkjunnar og Alþingishússins. Meðal þeirra sem verst urðu úti var Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sem fékk egg í höfuðið þannig að hann féll við.

Umræður voru um það meðal þingmanna í kjölfarið og aftur við undirbúning þingsetningarinnar að breyta fyrirkomulaginu. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir það eðlilegt enda hafi ástandið verið óvenjuslæmt við þingsetninguna í fyrra. „Það er ekkert skrítið að mönnum ói við því að halda þessu óbreyttu ef þetta ætti að endurtaka sig. En ég tel að það eigi ekki eftir að gera það. Og treysti því.“

Ásta segir að umræðurnar hafi ekki aðeins verið í sínum flokki, Samfylkingunni, heldur víðar. „Ýmsir lentu illa í því síðast og hétu því láta ekki bjóða sér þetta aftur, þannig að það voru skiptar skoðanir um þá niðurstöðu forsætisnefndar að halda óbreyttu fyrirkomulagi.“

Aðspurð um viðbúnað við þingsetninguna segir Ásta að Alþingi hafi ekki afskipti af öryggisviðbúnaði heldur sé hann alfarið í höndum lögreglunnar. En hvað sem því líður og atburðunum í fyrra á hún ekki von á því að þingmenn veigri sér við að mæta til setningarinnar. „Það eru náttúrlega aldrei allir sem taka þátt í henni, það er bara þannig. Sumir fara til Siðmenntar og mæta svo í þinghúsið, þannig að það er allur gangur á þessu. En ég veit að það verður ágæt þátttaka.“

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert