Sá möguleika á launaskriði

Björn Zoëga forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga forstjóri Landspítalans. Mbl.is/Árni Sæberg

„Möguleikinn sem ég sá var að brjóta múrinn þannig að í framtíðinni væru möguleikar á því að hækka launin meira í heilbrigðisgeiranum, sem er engin vanþörf á. En einhvers staðar verður viðspyrnan að koma,“ segir Björn Zoëga forstjóri Landspítalans. Forkólfar stéttafélaganna hafi ekki séð sömu möguleika í stöðunni þegar honum bauðst launahækkun.

Skalinn yrði sprengdur

Í fréttatilkynningu velferðarráðuneytisins í dag, um samkomulag Björns og Guðbjarts Hannessonar ráðherra um að falla frá launahækkuninni, er haft eftir Birni að hann hafi talið að með launahækkuninni yrðu um leið auknar líkur á því að auðveldara yrði fyrir heilbrigðisstarfsfólk að sækja kjarabætur á næstunni. „Ég hafði rangt fyrir mér hvað þann þátt varðar,“ sagði í yfirlýsingu Björns. 

Aðspurður hvað hann eigi við með þessu segist Björn hafa talið að til lengri tíma litið yrðu kannski meiri líkur á því, eftir þessa launahækkun, að önnur störf í heilbrigðiskerfinu yrðu metin meira í næstu kjarasamningum, árið 2014. „Stundum er þetta kallað launaskrið,“ segir Björn. „Ég mat það svo að þarna væri sprengdur skali og það myndi hafa áhrif á alla. Því eins og margoft hefur komið fram og við vitum öll þá erum við ekki með sérlega hálaunað starfsfólk, en auðvitað er það ekki þannig að spítalinn semji við starfsfólkið, heldur er það ríkið.“

Stéttafélögin sáu ekki sama möguleika

Aðspurður hvort velferðarráðherra hafi gert honum það ljóst að frekari hækkanir annarra starfsmanna myndu ekki fylgja í kjölfarið neitar Björn því. „Mér heyrðist nú BHM skilja þetta svipað og ég, en aðrir forkólfar stéttafélaganna sáu þetta ekki á sama hátt. Þá þýðir það að ég hafi haft rangt fyrir mér, þar sem stéttafélögin sáu ekki möguleika í þessu.“

Telur þú þá að þetta hafi verið vannýtt tækifæri miðað við þessa niðurstöðu?

„Já, miðað við þessa niðurstöðu og miðað við hvernig stéttafélögin börðust gegn þessu tel ég að þarna hafi farið tækifæri úr höndunum, ef til lengri tíma er litið.“

Björn segir að Landspítalinn sé nú að ná vopnum sínum eftir samfelldan 5 ára niðurskurð, þar sem skorið hafi verið niður um 23% með sömu eða meiri framleiðslu. Á fjárlögum 2013 sé ekki frekari hagræðingarkrafa og þar með gefist viðspyrna fyrir næstu ár.

„Við erum með of mikið af fólki á lágum launum og það er verkefni okkar til næstu ára að reyna að hækka launin, eins mikið og hægt er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert