Allir þingmenn vilja halda áfram

Merki Samfylkingunnar.
Merki Samfylkingunnar.

Allir þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi vilja halda áfram. Fleiri munu íhuga framboð samkvæmt frétt Vikudags á Akureyri og segir að Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, og Kristrún Heimisdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, séu að hugsa málið. 

Áður hefur komið fram að Kristján L. Möller, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir stefni öll á að sitja áfram fyrir flokkinn á Alþingi. Í fréttinni er einnig minnst á Loga Má Einarsson, fyrsta varaþingmann flokksins í kjördæminu, en hann segir að hann hafi ekkert hugleitt þessi mál ennþá. Kristrún Heimisdóttir vildi ekkert segja um málið á þessari stundu, en hún hefur starfað lengi innan Samfylkingarinnar og var meðal annars aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra.

Fyrr í dag var ákveðið hvernig staðið yrði að vali á framboðslista í kjördæminu og samþykkti kjördæmaráð flokksins að kosið yrði um 6 efstu sæti framboðslistans í prófkjöri þar sem flokksmenn og skráðir stuðningsmenn einir hafi kosningarétt. Segir í tilkynningu að við kosninguna verði stuðst við „reglur um paralista, þ.e. jafnt hlutfall tryggt í sæti 1. og 2. Síðan í næstu tvö sæti og svo koll af kolli í hver tvö sæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert