Björn Valur vill fram í Reykjavík

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur ákveðið að sækjast eftir því að leiða lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Frá þessu er greint á vef Eyjunnar.

Áður hafa ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, og Svandís Svavarsdóttir lýst yfir framboði og vilja til að leiða annan hvorn listann í Reykjavík.

Nokkrar vangaveltur hafa verið að undanförnu hvort Björn Valur gefi kost á sér að nýju og þá í hvaða kjördæmi. Auk þess hafa menn velt því fyrir sér hvar formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, bjóði sig fram.

Í ljósi þess að hjá flokknum eru kynjaðir fléttulistar var ljóst að Steingrímur og Björn Valur gátu ekki verið í fyrsta og öðru sæti í sama kjördæmi. Björn Valur hefði því tæplega getað lent ofar á lista en í þriðja sæti í NA-kjördæmi og í ljósi vísbendinga um töluvert fylgistap samkvæmt flestum skoðanakönnunum væri það áhætta fyrir hann.

Fréttablaðið hefur greint frá því að Steingrímur muni bjóða sig fram í NA-kjördæmi. Þriðji þingmaður flokksins þar, Þuríður Bachman, hefur hinsvegar gefið út fyrir nokkru að hún hyggi ekki á endurkjör til Alþingis.

Framboðsfrestur hjá Vg í Reykjavík rann út á hádegi í dag en forval fyrir bæði kjördæmi fer fram sameiginlega 24. nóvember. Þar verður valið um þrjú efstu sæti í hvoru kjördæmi.

Flokkurinn á í dag tvo þingmenn í hvoru kjördæmi sem allir bjóða sig fram aftur, en auk fyrrgreindra ráðherra bjóða þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir sig fram að nýju og óska eftir að skipa annað sæti á hvorum lista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert