Ögmundur stefnir á efsta sætið

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra mbl.is/Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson gefur kost á sér í 1. sæti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðvesturkjördæmi.

Ögmundur hefur setið á þingi frá árinu 1995. Hann tók við embætti heilbrigðisráðherra í febrúar 2009 en sagði af sér vegna ágreinings í Icesave-málinu síðar sama haust. Ögmundur tók að nýju sæti í ríkisstjórn í september 2010, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem síðar varð að embætti innanríkisráðherra, samkvæmt fréttatilkynningu frá Ögmundi.

„Alla mína tíð í stjórnmála- og félagsmálabaráttu hef ég lagt áherslu á jöfnuð. Bæði vegna þess að í honum felst réttlæti og einnig vegna hins að jafnaðarsamfélag er kröftugra en samfélag ójafnaðar og betur til þess falið að skapa verðmæti. Á samdráttartímunum undangengin ár hef ég talið brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að standa vörð um innviði samfélagsins og auðlindir þjóðarinnar.  Ég hef beitt mér fyrir skýrri forgangsröðun hvað þetta varðar,“ segir Ögmundur.

Sem innanríkisráðherra hefur Ögmundur lagt ríka áherslu á að efla veg mannréttindamála. Þannig hefur í ráðherratíð hans farið fram ítarleg umræða um meðferð  kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, ráðist hefur verið í vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum og lögum um miska- og skaðabótagreiðslur til þolenda ofbeldis hefur verið breytt til hins betra. Tryggðar hafa verið fjárveitingar til baráttu lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.  Ýmsar umbætur eru í farvatninu á sviði réttarfarsmála, málefna útlendinga  og í fangelsismálum rofar nú til með byggingu nýs fangelsis. Rafræm þjónusta og beint lýðræði er í brennidepli og lög um aukið vægi persónukjörs væntanleg. Þá vinnur Ögmundur að betri lagaumgjörð um happdrættismál og eignarhald á landi. Í forgang hefur verið sett rannsókn á meintum efnahagsbrotum.”

„Reynt hefur verið eins og kostur er að skapa þeirri rannsókn eðlilega meðferð í dómskerfinu. Lyktir hennar  eru forsenda sáttar í samfélaginu. Þá vil ég leggja áherslu á að eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að standa vörð um auðlindir til lands og sjávar – og nefni ég þar vatnið sérstaklega. Ég vinn nú að endurskoðun á lögum um eignarhald erlendra aðila á landi  en ásælni peningamanna í jarðnæði minnir okkur á mikilvægi varðstöðu í þessu efni. Þá er það ein af skyldum okkar að halda í heiðri ótvíræðan vilja þjóðarinnar í auðlindamálum almennt sem fram kom í atkvæðagreiðslu á dögunum,“ segir í tilkynningu frá Ögmundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert