Umdeilt síki í miðbæ Akureyrar út af borðinu

Síkið umdeilda - teiknuð tillaga.
Síkið umdeilda - teiknuð tillaga. Af vef Vikudags

Vinna við gerð nýs skipulags fyrir miðabæjarsvæðið á Akureyri er hafin og verður tillaga að nýjum miðbæ væntanlega kynnt næsta sumar. Helgi Snæbjarnarson formaður umhverfisnefndar greindi frá þessu á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Þetta kemur fram í frétt á vef Vikudags.

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var umdeild tillaga að nýjum miðbæ mikið rædd, aðallega var hart deilt um gerð síkis á svæðinu. L-listinn, sem nú er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn, var alfarið á móti síkinu.

Á bæjarstjórnarfundinum sagði Helgi að vinna við gerð nýs skipulags væri rétt að hefjast, líklegt væri að síkið verði látið víkja.

Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-listans sagði að í síðustu kosningum hefði komið berlega í ljós að bæjarbúar væru á móti síki í miðbænum. Hann lagði áherslu á að almenningur yrði hafður með í ráðum við gerð nýs skipulags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert