Mikilvægt að meta heildaráhrif frumvarpsins

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er algert grundvallaratriði, virðulegi forseti, að slík athugun fari fram. Og það er ennfremur algert grundvallaratriði að slík athugun fari fram áður en frumvarpið er lagt fram til fyrstu umræðu í þinginu,“ sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag um fyrirhugað frumvarp byggt á tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem stefnt er að því að leggja fram til fyrstu umræðu í þinginu eftir helgi.

Ólöf vakti athygli á því að lögfræðinefnd sem fengin var til þess að fara yfir tillögu stjórnlagaráðs hefði gert 75 efnislegar breytingar á henni auk annarra ábendinga. Þá hefði nefndin kallað eftir því að sérfræðingar yrðu fengnir til þess að leggja mat á heildaráhrif frumvarpsins áður en það yrði að lögum. Slíkt hefði hins vegar ekki farið fram.

„Þá kemur fram í áliti nefndarinnar að rétt sé að leita til sérfræðinga og ekki síst erlendra sérfræðinga þegar kemur að þessu máli. Og ég vil taka undir það með þessum aðilum sem þessa skýrslu unnu að það eigum við að gera. Það er ekkert tímahrak fyrir hendi í þessu máli. Til þess er þetta mál alltof mikilvægt að við séum hér í slíkum tímafrestum að það eigi ekki að líta til þessara grundvallaratriða,“ sagði hún ennfremur.

Ólöf sagðist af þeim sökum ætla að fara fram á það í störfum sínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að slíkir aðilar verði fengnir að verkinu. „Ég vil ennfremur fara fram á það að þessu verki verði áfangaskipt, virðulegi forseti, áfangaskipt svo að hægt sé að vinna þetta svo einhver sómi verði af fyrir þingið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert