Kennari fékk dóm um sig fjarlægðan

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Kvenkyns kennari á fimmtugsaldri sem í Héraðsdómi Reykjavíkur var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ærumeiðandi aðdróttanir á netinu gagnvart karlmanni fékk dóminn fjarlægðan af vef dómstólanna. Reglur dómstólaráðs gera ekki ráð fyrir því að dómar séu fjarlægðir að ósk aðila dómsmáls.

Greint var frá dómnum á mbl.is 20. nóvember sl., sama dag og hann var kveðinn upp. Þá var hann birtur á vef dómstólanna með fullu nafni konunnar. Þar kom fram að á tímabilinu 14. til 29. mars sl. hefði konan ritað undir ljósmynd af manninum sem var á vefsíðu Mottumars, átaks Krabbameinsfélagsins, sex færslur undir hinum ýmsu dulefnum.

Meðal þeirra ummæla sem konan ritaði voru „Drepstu viðbjóður“, „Ljótleikinn er jafn að utan sem innan hjá þér“, og „Hættur að berja konuna og krakkana?“.

Daginn eftir fjallaði mbl.is aftur um málefni konunnar og rifjað upp að hún hlaut dóm í desember í fyrra fyrir brot gegn barnaverndarlögum. Þá sendi hún syni sama manns  smáskilaboð sem voru talin hafa verið til þess fallin að særa hann og móðga.

Þá var rætt við yfirmann konunnar í Fjölbrautaskólanum í Ármúla sem staðfesti að hún hefði haldið starfi sínu þrátt fyrir brot gegn barnaverndarlögum og að verið væri að skoða mál hennar í ljósi síðari dómsins.

Þess má geta að konan var ekki nafngreind.

Dómurinn hvarf og kom ekki aftur

Síðar sama dag var búið að fjarlægja dóminn af dómstólavefnum. Og í stað þess að nafn konunnar kæmi fyrir í dagskrá yfir mál Héraðsdóms Reykjavíkur var kominn bókstafur. Dómurinn hefur ekki enn verið settur inn á vefinn að nýju.

Þá er ekki hægt að finna þess merki á vef dómstólanna að fyrri dómurinn yfir konunni hafi verið birtur á vefnum, nema hann hafi þá verið tekinn út eins og sá síðari.

Dómstólaráð setur reglur um birtingu dóma á netinu og voru þær síðast endurskoðaðar árið 2010. Í 1. grein segir: „Dómar og úrskurðir héraðsdómstóla skulu birtir á sameiginlegri heimasíðu héraðsdómstóla á netinu.“

Í reglunum má finna undantekningar á þessu, t.d. eru gjaldþrotamál ekki birt, ekki mál sem varða horfna menn eða sjálfræðissviptingar. Ekkert kemur hins vegar fram um það í reglunum að dóma í meiðyrðamálum skuli ekki birta, enda eru þeir jafnan birtir á vef dómstólanna.

Reglurnar bjóða upp á aðrar lausnir

En þó svo að dómar séu birtir er ekki endilega þar með sagt að þar þurfi allar upplýsingar að koma fram. Þannig segir einnig í 1. grein: „Ef ætla má að birting dóms eða úrskurðar sé sérstaklega íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi er rétt að taka úr dómi eða úrskurði frekari upplýsingar en mælt er fyrir um í reglum þessum.“

Gætt er nafnleyndar þegar menn eru sýknaðir eða þegar birting á nafni hans getur talist andstæð hagsmunum brotaþola. Þá eru nöfn brotaþola alltaf tekin út í kynferðisbrotamálum og nöfn þeirra sem geta persónugreint brotaþola.

Þá er talað um nafnleynd fyrir einstaklinga undir 18 ára aldri, ef um er að ræða forsjá barna, viðkvæmar heilsufarsupplýsingar og viðkvæm persónuleg málefni.

Í 4. grein segir svo að afmá skuli úr dómum og úrskurðum atriði sem eðlilegt sé að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.

Þannig að aftur sé vitnað í 4. grein þá segir: „Áður en dómari sendir dóm eða úrskurð til birtingar metur hann hvort afmá beri atriði úr úrlausninni og ber ábyrgð á því að hún fari fram í samræmi við áðurnefnd ákvæði.“ 

Til áréttingar er verið að tala um að taka nöfn og upplýsingar út úr dómum, ekki taka þá út af vef dómstólanna. Og dómari í meiðyrðamáli konunnar mat það augljóslega sem svo að ekki þyrfti að afmá neitt úr dómnum áður en hann var birtur.

Reglur um birtingu endurskoðaðar

Leitað var eftir upplýsingum um málið hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og spurt hvort það gæti verið að dómurinn hefði verið fjarlægður að beiðni konunnar. Þaðan fengust fyrst þau svör að reglur dómstólaráðs um birtingu dóma á vefsvæði dómstólanna gerðu ekki ráð fyrir því að dómar væru almennt fjarlægðir að ósk aðila dómsmáls.

Þegar spurningin var ítrekuð með ítarupplýsingum fengust eftirfarandi svör frá varadómstjóra: „Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið var dómur þessi fjarlægður af heimasíðu dómstólsins þar sem birting hans þótti sérstaklega íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi.“

Þá var tekið fram að reglur um birtingu dóma á heimasíðu héraðsdómstólanna væru til endurskoðunar á vegum dómstólaráðs.

Hvort sú endurskoðun leiði af sér að aðilar dómsmála fái að velja og hafna því hvort dómar um þá verði birtir almenningi skal ósagt látið.

Salur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Salur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert