Lágmark að skipstjóri viti hverjir landa

Landað í Ólafsvík.
Landað í Ólafsvík. Rax / Ragnar Axelsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt skipstjóra Ástu GK-262 til að greiða 600 þúsund krónur vegna brots gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Jafnframt var karlmanni sem sá um að flytja afla úr Ástu gert að greiða 600 þúsund fyrir sama brot.

Málið komst upp fyrir tilstilli starfsmanns frá Fiskistofu. Hann var staddur í Ólafsvík og fylgdist með löndun úr Ástu vegna ábendinga sem höfðu borist. Starfsmaðurinn kom sér fyrir í um það bil þrjú til fjögur hundruð metra fjarlægð frá bryggjunni og sá þokkalega yfir svæðið með sjónauka.

Starfsmaðurinn sagði að nítján kör í allt hefðu farið flutt inn í bíl sem stóð á bryggjunni. Starfsmaðurinn hafði þá samband við Fiskmarkaðinn sem vigtaði aflann og bað um upplýsingar um hversu mikið hefði verið vigtað úr Ástu. Hann fékk þær upplýsingar að það hefðu verið sautján kör, sextán stór og eitt lítið.

Flutningabílnum var fylgt eftir frá Ólafsvík til Sandgerðis, þar sem fiskikör voru flutt inn í fiskverkun, en ekki var gripið inn í fyrr en bíllinn kom í Garðinn, þar sem stoppað var við aðra fiskverkun. Þar óskaði eftirlitsmaður Fiskistofu eftir því að fá að skoða inn í bifreiðina til að fullvissa sig um að allur fiskur væri farinn úr bifreiðinni. Ökumaðurinn neitaði eftirlitsmanninum um það og ók í átt til Keflavíkur.

Lögreglan stöðvaði bifreiðina skammt frá Keflavík. Þar skoðaði lögreglumaður inn í bifreiðina og sá að þar voru tvö kör með óslægðum þorski. Ökumaðurinn varð missaga um það hvert förinni væri heitið með fiskinn en við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði hann að fiskurinn hefði átt að fara til Hafnarfjarðar, án þess að skýra það frekar.

Lögreglan lagði hald á aflann í körunum tveimur og var hann vigtaður á hafnarvoginni í Sandgerði og reyndist vera um að ræða 857 kg af óslægðum þorski að verðmæti 295.752 krónur.

Skipstjóri getur ekki firrt sig ábyrgð

Ökumaðurinn var ákærður ásamt skipstjóra Ástu og neituðu þeir báðir sök fyrir dómi. Í niðurstöðu dómsins segir að skipstjórinn geti ekki með þeirri lausung sem var viðhöfð við umrædda löndun firrt sig þeirri miklu ábyrgð sem á honum hvíli til þess að tryggt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir við vigtun.

„Í fyrsta lagi vissi hann ekki hverjir stjórnuðu lyfturum sem fóru með aflann á vigtina. Í öðru lagi hafði hann ekki samband við vigtarmann til þess að tryggja að til hans hefðu  borist réttar og fullnægjandi upplýsingar um þann afla sem landað var úr bátnum. Verður, að mati dómara, að gera þá lágmarkskröfu að skipstjóri viti hverjir eru að landa úr bát hans þannig að hægt sé að kanna hvað hafi farið úrskeiðis komi til þess.“

Þá segir að með háttalagi sínu við umrædda vigtun hafi skipstjóri varpað ábyrgð sinni yfir á aðra sem honum sé ekki heimilt nema að viðhafðri ýtrustu aðgæslu.

Hvað varðar þátt bílstjórans segir í dómnum að hann hafi í raun játað brot þegar hann viðurkenndi að hafa ekki vigtarnótu meðferðis, enda sé ökumanni flutningstækis fortakslaust óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta. Jafnframt sé ökumanninum skylt að fá afrit af vigtarnótu til þess að afhenda viðtakanda aflans.

Greiði mennirnir ekki sektina innan fjögurra vikna skulu þeir sæta fangelsi í 32 daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert