„Löðrungur fyrir Evrópusambandið“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Kristinn Ingvarsson

„Þetta er auðvitað löðrungur fyrir ESA og Evrópusambandið,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um sigur Íslands í Icesave-málinu. Hann segir að þótt margir hafi komið að og beri að þakka sé þetta fyrst og fremst sigur þjóðarinnar.

Sigmundur Davíð segist himinlifandi yfir niðurstöðunni. Hann hafi aldrei efast um lagalegan rétt Íslands en erfitt getur verið að reiða sig á lagalegan rétt þegar alþjóðlegir dómstólar komast að niðurstöðu. „EFTA-dómstóllinn stóð fyrir sínu og rökstyður þetta að mínu mati mjög vel, enda með þeim rökum sem við Íslendingar héldum fram. Það má segja að dómstóllinn taki að nánast öllu leyti undir rökstuðning okkar, þannig að þetta er fullnaðarsigur fyrir Ísland.“

Á hinn bóginn segir Sigmundur Davíð að niðurstaðan sé löðrungur fyrir ESA og Evrópusambandið. „Evrópusambandið ákvað, í fyrsta skipti, að troða sér inn í mál fyrir EFTA-dómstólnum og taka þátt í málshöfðuninni gegn Íslandi með svonefndri meðalgöngu. Og þegar verið var að flytja málið beitti fulltrúi Evrópusambandsins sér mjög hart og lýsti því þannig yfir að ef Íslendingar ynnu málið fæli það í sér miklar hamfarir. Miðað við hvað það var langt seilst hjá þeim í þessum málaferlum dylst engum að niðurstaðan er mikið áfall fyrir sambandið.“

Tökum daginn í að fagna

Spurður út í samningaviðræðurnar og samningana tvo sem felldir voru af þjóðinni segir Sigmundur Davíð: „Þegar þetta hefur farið svona vel varast maður að tala um fortíðina, alla vega svona rétt í byrjun. En það er ekki hægt að líta framhjá því hvernig haldið hefur verið á málinu af hálfu stjórnvalda, í ljósi þessarar niðurstöðu. Það hefur verið gengið ótrúlega hart fram við að troða í gegn þessum samningum ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir allar aðvaranir um galla og fyrst og fremst að þeir ættu ekki rétt á sér.“

Jafnframt segir Sigmundur að það hafi verið sótt mjög að þeim sem börðust fyrir því sem reyndist að lokum rétt niðurstaða. „Mér finnst að það sé ekki hægt að líta framhjá því, þó við tökum daginn í dag til að fagna góðri niðurstöðu.“

Ekki af Framsóknarflokknum tekið

Hvað varðar baráttuna sem Sigmundur nefnir segir Sigmundur að niðurstaðan hefði ekki orðið sigur Íslands fyrir EFTA-dómstólnum ef hóparnir InDefence og Advice hefðu ekki háð sína miklu baráttu. „Þetta hefur verið gífurlega mikil vinna fyrir þá sem tóku þátt og allt í sjálfboðavinnu. Og þessi niðurstaða hefði ekki náðst ef ekki hefði verið fyrir baráttu Framsóknarflokksins. Það verður ekki af flokknum tekið að ef við hefðum ekki staðið í lappirnar í málinu hefði það ekki farið eins og það fór. Við hefðum hvorki náð þessari undirskriftarsöfnun sem var forsenda þess að fyrri samningnum var hafnað né hefði forsetinn getað hafnað undirskrift í seinna skiptið ef allir flokkar hefðu þá stutt málið.“

Og hvað þátt Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og þjóðarinnar varðar segir Sigmundur: „Niðurstaðan hefði svo ekki náðst ef ekki væri fyrir það, að Ólafur Ragnar var reiðubúinn að hafna þessum lögum, og hún hefði ekki náðst ef ekki væri fyrir þjóðina sem greiddi atkvæði gegn þeim í tvígang. Þetta er fyrst og fremst sigur þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert