Erlend stjórnvöld kosti ekki áróður

„Framsóknarflokkurinn telur fulla ástæðu til að setja án tafar lög sem fyrirbyggja að erlend stjórnvöld eða erlendir aðilar geti stundað eða fjármagnað póltískan áróður hér á landi. Það má vera ljóst að ef íslenskir stjórnmálaflokkar búa við takmörkuð fjárráð en erlendir aðilar mega dæla hingað ótakmörkuðum fjárhæðum til að vinna sjónarmiðum sínum fylgi, þá er lýðræði í landinu hætta búin,“ segir í ályktun Framsóknarflokksins um innanríkismál.

Samkvæmt heimildum mbl.is er hér verið að vísa til Evrópustofu, sem rekin er með fjármagni frá Evrópusambandinu og stendur að kynningu um sambandið hér á landi.

Vilja að sóknargjöld renni óskert til trúfélaga

Þá ályktar flokkurinn einnig um þjóðkirkjuna og segir: „Framsóknarflokkurinn vill að áfram verði stutt við öflugt starf þjóðkirkjunnar um land allt, enda er íslensk þjóðmenning sprottin úr kristnum jarðvegi. Sóknargjöld eru félagsgjöld trúfélaga sem ríkið hefur tekið að sér að innheimta fyrir þau öll á grundvelli samninga og laga. Það er skýr krafa að sóknargjöldin renni óskert til þeirra.“

Dómstigum fjölgað og flýtimeðferð dómsmála

Í ályktun flokksins segir einnig að flokkurinn vilji að dómstigum verði fjölgað úr tveimur í þrjú til að gera dómskerfið skilvirkara og til að hraða gangi mála. Flokkurinn „vill tryggja flýtimeðferð dómsmála hvað lána- og skuldamál varðar til að hraða fjárhagslegri endurskipulagningu heimila og fyrirtækja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert