Tekur undir með Árna Páli

Magnús Orri Schram.
Magnús Orri Schram. mbl.is/Árni Sæberg

„Forgangsatriðið er að tryggja nýja stjórnarskrá.  Aðalatriði er ekki hvenær, heldur hvort þjóðin eignist nýtt plagg sem endurspegli þjóðarviljann sem birtist 20. október og standist tæknilega kröfur samanber Feneyjanefnd og umsagnir margra úr akademíunni,“ skrifar Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, á bloggsíðu sinni. 

Magnús Orri segir að það plagg, sem afgreitt var úr þingnefnd á föstudaginn  standist hvort tveggja en líklega er það of seint. „Við munum ekki ná að ljúka umræðu á fáum þingdögum og íhaldið mun auðveldlega geta stöðvað framgang málsins í málþófi.  Þá deyr allt málið. Tækist að þröngva málinu í gegn nú í vor, myndi málið vera í fullkomnu uppnámi þegar nýtt þing kemur saman.“

Magnús Orri segir að besti leikurinn í stöðunni sé því að tryggja að hægt verði að ljúka málinu á næsta kjörtímabili. „Það er gert með því að opna leið fyrir þingið til að afgreiða stjórnarskrá á næsta þingvetri og að þjóðin geti svo í framhaldinu greitt atkvæði um nýja stjórnarskrá.“

„Þess vegna eiga stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrár að taka undir málamiðlunarhugmynd Árna Páls. Með henni getum við fengið í gegn ákvæði um þjóðarauðlindir og beint lýðræði,“ skrifar Magnús Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert