Leiguleiðin út af borðinu

Horft yfir svæðið þar sem ætlunin er að nýr Landspítali …
Horft yfir svæðið þar sem ætlunin er að nýr Landspítali rísi.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur afgreitt nefndarálit um frumvarp um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala. Í því segir að það hafi verið nær einróma álit gesta nefndarinnar að hagstæðara væri að um opinbera framkvæmd væri að ræða frekar en að ríkið færi leiguleiðina.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem tóku gildi í júnímánuði 2010 þar sem veitt er heimild til að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala, háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík. Upphaflegur tilgangur félagsins var að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala með það að markmiði að ríkið tæki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingarverktaki hefði lokið umsömdu verki.

Meðal breytinga sem lagðar eru til er að ekki verði lengur til staðar heimild til að semja um að ríkið taki byggingarnar á leigu að loknu útboði.

„Að lokinni yfirferð nefndarinnar er ljóst að almennt eru breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu til bóta. [...] Rökin fyrir breytingunum eru af ýmsum toga. Fram hefur komið að íslenskir verktakar hafa tæplega fjárhagslega burði til þess að standa undir áhættunni sem fylgir því að bjóða í verkefni af þessari stærðargráðu. Gjaldeyrishöftin gera það síðan að verkum að alls óvíst er með áhuga og þátttöku erlendra verktaka.“

Þá segir að næstu skref felist í því að afla fjárheimilda í fjárlögum til þess að bjóða út fullnaðarhönnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert