„Bjórinn er eins og leiðinlegi frændinn í partýinu“

Margt gott er gert í forvarnarstarfi innan íþróttahreyfingarinnar, en margt má betur gera. Töluvert af fjármunum rennur til æskulýðs- og íþróttamála, eða um 13,5 milljarðar á ári. Þegar fólk þiggur svona mikið af opinberu fé, þá hefur það skyldur við samfélagið. Það verður að vera yfir allan vafa hafið.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Árna Guðmundssonar, sem er formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á fundi samtakanna Náum áttum, sem haldinn var á Grand Hótel í morgun. Erindi Árna hét „Með bjórdollu í annarri hendinni og forvarnarstefnu í hinni?“

Íþróttir sem uppeldisstarf og sem iðnaður

„Íþróttir sem uppeldisstarf og íþróttir sem iðnaður eru tvennt ólíkt, allt önnur lögmál ráða varðandi uppeldisstarf. Þess vegna getur íþróttahreyfingin ekki verið í samstarfi við annað en það sem er til sóma,“ sagði Árni.

Hann spurði hvort heimsþekktir íþróttamenn væru ekki skyldari sápuóperustjörnum í vanda en fyrirmyndum. Þetta væru ekki góðar fyrirmyndir. Hann gerði líka að umtalsefni áfengisauglýsingar á búningum íþróttamanna, en eftirlíkingar af þeim eru seldar í  barnastærðum. „Varðar það kannski við barnaverndarlög að fjögurra ára gamalt barn skuli ganga um með áfengisauglýsingu?“ spurði Árni.

Engin kæra frá árinu 2009

Hann rifjaði upp mótmæli gegn áfengisauglýsingum og hvaða árangur þau hafa borið. „Það hefur engin kæra borist varðandi áfengisauglýsingar frá árinu 2009. Virðingarleysið gagnvart réttindum barna og unglinga er algjört.“

Því miður er fullt af skussum

„Því miður er fullt af skussum sem halda að peningar, hvaðan sem þeir koma, séu góðir fyrir félagið. Það þýðir ekkert að vera með bjórdollu í annarri og forvarnarstefnu í hinni. Ef maður ætlar að ná árangri, þá verður maður að vera heill,“ sagði Árni. 

„Bjórinn er eins og leiðinlegi frændinn í partýinu sem fær að vera með því hann á fullt af peningum. Sveitarfélögin eiga auðvitað að skilyrða allar sínar styrkveitingar til íþróttahreyfingarinnar.“

Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni „Forvarnagildi íþrótta- og tómstundastarfs. Hvað virkar og hvað virkar ekki?“

Náum áttum er opinn samstarfshópur um fræðslu- og forvarnamál og meðal þeirra sem að honum standa eru Embætti landlæknis, Reykjavíkurborg, Þjóðkirkjan, Barnaverndarstofa og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert