Svona færðu saklausan mann til að játa morð

Birgitte Tengs fannst myrt á eyjunni Karmøy þann 6. maí …
Birgitte Tengs fannst myrt á eyjunni Karmøy þann 6. maí 1995. Henni hafði verið nauðgað og hún kyrkt. Morðið er í dag enn óupplýst, en frændi hennar var sakfelldur fyrir það árið 1997.

Árið 1997 játaði unglingspiltur í Noregi að hafa myrt frænku sína, hina 17 ára gömlu Birgitte Tengs. Með aðkomu Gísla Guðjónssonar, réttarsálfræðings, þótti síðar sannað að játningin var fölsk og knúin fram af lögreglunni í Noregi, sem hafði tileinkað sér harðneskjulegar yfirheyrsluaðferðir FBI. Birgitte málið hafði mikil áhrif á norska réttarkerfið, m.a. í máli Anders Behring Breivik.

Ungi maðurinn, sem í Noregi er fyrst og fremst þekktur sem „frændinn“, var aðeins 19 ára þegar hann var dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir morðið. Hann var yfirheyrður samtals í 180 klukkustundir og játaði að hafa myrt Birgitte þótt hann myndi ekki eftir því.

Í nýjasta tölublaði norska tímaritsins Plot tjáir hann sig í fyrsta sinn um málið sem lagði líf hans í rúst. Þótt 15 ár séu liðin vill hann þó enn ekki til að koma fram undir nafni og á mynd, enda ekki nema 2 ár síðan hann var rekinn úr starfi í banka þegar yfirmenn hans komust að því að hann væri „frændinn“. Hann var á endanum sýknaður, en nafn hans hefur ekki verið hreinsað. Hann kemur því fram undir dulnefninu Espen. 

Skólabókardæmi um falska játningu

Mál hins unga Espen er í raun skólabókardæmi um það hvernig fölsk játning getur komið fram hjá venjulegu fólki sé „réttum“ aðferðum beitt. Hvers vegna ætti nokkur maður að játa hryllilegan glæp sem hann ekki framdi? Flest teljum við eflaust að við myndum aldrei gera slíkt, en hinar vafasömu yfirheyrsluaðferðir sem raktar eru í Plot varpa ljósi á hvernig slíkt gæti líklega hent hvern sem er, því eins og mbl.is hefur sagt frá eru falskar játningar mun algengari en áður var talið.

Auk Espens er einnig rætt við rannsóknarlögreglumanninn Asbjørn Rachlew, einn reyndasta rannsóknarlögreglumann Noregs. Um það leyti sem Gísli Guðjónsson var kallaður til vitnis í Birgitte-málinu var Rachlew að snúa heim frá sérfræðinámi í Bretlandi og átti hann eftir að gjörbreyta verklagi lögreglunnar í Noregi með hliðsjón af framburði Gísla.

Áhrifanna gætti í máli Anders Behring Breivik

Þegar yfirheyrslur fóru fram yfir Anders Behring Breivik eftir fjöldamorðin á Útey 2011 var Rachlew kallaður sérstaklega til ráðgjafar. Þá hafði lögreglunni lærst að það skipti gríðarlegu máli að ganga ekki of hart fram í svo mikilvægu máli til að hætta ekki á falskar upplýsingar. Breivik var aldrei beittur harðræði eða þvingunum heldur fóru yfirheyrslurnar fram með yfirveguðum samtölum þar sem allt var ítarlega skráð.

Af orðum Rachlew má ráða að aðkoma Gísla Guðjónssonar að Birgitte-málinu á 10. áratugnum hafði mikið með það að segja hvernig norska lögreglan starfar í dag: „Þegar ég las sérfræðiálit Gísla Guðjónssonar skildi ég að það var til staðar mikil þekking sem norska lögreglan bjó einfaldlega ekki yfir, þrátt fyrir að ég hafi þá sjálfur unnið að morðrannsóknum í mörg ár.“

Óttast lögregluna enn 15 árum síðar

Birgitte Tengs varð aðeins 17 ára. Hún fannst myrt á eyjunni Karmøy þann 6. maí 1995. Nokkrum dögum síðar var jafngamall frændi hennar, Espen, yfirheyrður en ekkert kom út úr því. Tveimur árum síðar var málið hins vegar rannsakað aftur, eftir að fram komu upplýsingar um að nóttina sem Birgitte var myrt hafi Espen komið heim til sín 15 mínútum síðar en hann fullyrti sjálfur í fyrstu yfirheyrslu.

Enn þann dag í dag er Espen afar taugatrekktur maður. Blaðamenn Plot segja hann hafa sérviskulegar tilhneigingar. Hann sé mjög upptekinn af því að festa smæstu smáatriði umhverfisins sér í minni, þá ekki síst hvað klukkan er. Hann verður alltaf að vita hvað klukkan er.

Sem fullorðinn maður er Espen haldinn stöðugum ótta við að lögregluyfirvöld gæti komið einn daginn og handtekið hann á nýjan leik með ásökunum um hitt og þetta. Varpað honum í einangrunarklefa.

Mánuður í einangrun

Aldrei fundust neinar tæknilegar sannanir fyrir því að Espen hefði nauðgað frænku sinni og svo myrt hana. Lögreglan virðist engu að síður hafa verið sannfærð um að hann væri morðinginn, en eina leiðin til að sanna það var að fá hann til að játa. Til verksins var fenginn fremsti yfirheyrslusérfræðingur Noregs á þeim tíma, Stian Elle.

Í heilan mánuð vorið 1997 sat Espen, þá 19 ára, í einangrun. Eini maðurinn sem hann hitti var Stian Elle og saman sátu þeir tveir klukkutímum saman, daginn út og inn, og ræddu málin án þess að þokast neitt áfram. Espen minnist þess núna að þetta hafi verið skelfilega leiðigjarnt, en þó hafi verið skárra að fá að hitta Elle en að sitja einn í klefanum og gera ekkert.

Föstudagskvöld voru verst, því þá vissi Espen að það yrði engin yfirheyrsla næstu tvo daga. Þrjú löng kvöld og þrjár langar nætur áður en hann fengi næst að gera eitthvað annað en að stara út í loftið. Honum var lofað því að ef hann sýndi samvinnu fengi hann kannski eitthvað við að vera, horfa á fótboltaleik í sjónvarpinu til dæmis.

Engar minningar og engar sannanir

Vandinn var bara að það var ekkert til staðar, engin minning sem hann gat kallað fram frá malarveginum þar sem lík Birgitte fannst. Stian Elle sagði honum að reyna betur, þetta væri alveg eðlilegt, hann hefði nefnilega framið svo hryllilegan glæp að heilinn vildi ekki vita af honum og feldi minninguna.

Lögreglumaðurinn Elle var hughreystandi og traustur félagi í yfirheyrslunum. „Við skulum finna út úr þessu saman Espen,“ sagði hann. „Við erum nú einu sinni með allar tæknilegu sannanirnar gegn þér, svo við vitum vel að það varst þú sem gerðir þetta. Þú bara manst það ekki.“

Eftir nokkrar árangurslausar vikur skipti Elle um aðferð og bað Espen um að skrifa ímyndað kvikmyndahandrit um nóttina sem Birgitte var drepin. Um kvöldið fékk hann skrifblokk og penna með sér í klefann, fyrsta afþreyingin sem hann fékk eftir endalausa sólarhringa einn með hugsunum sínum.

Látinn skrifa sjálfan sig inn í handritið

Þetta var algjör hápunktur einangrunarvistunarinnar fyrir Espen, að fá gera eitthvað, skrifa, í stað þess að stara á vegginn. Svo hann byrjaði að skrifa morðsögu, frásögn af ónefndum manni sem myrti konu. Eina vandamálið, eins og kom í ljós daginn eftir, var að lýsingin passaði engan veginn við lögregluskýrslurnar í Birgitte-málinu.

Espen þurfti augljóslega að fá aðstoð við að koma þessu heim og saman. „Sjáðu til Espen, þetta er í rétta átt, en var það ekki þannig að veskið hennar Birgitte lá annars staðar en þar sem þú skrifar að það hafi verið? Sko, svona finnum við út úr þessu í sameiningu.“

Það tók 10 daga að fá Espen til að endurskrifa handritið sitt með hjálp Elle sem ýmist brosti eða hristi höfuðið eftir því sem Espen færði veskið til og frá. Loks gat Elle gæti skrifað í lögregluskýrslu „Espen staðsetti veski Birgitte á sama stað og það fannst á vettvangi morðsins“. Þegar þeim áfanga var náð var komið að því að Espen ætti að skrifa sjálfan sig inn í handritið. Gefa morðingjanum Espen aðalhlutverk.

Kennslubók í réttarmorði

Norska rannsóknarlögreglan hafði á þessum tíma innleitt yfirheyrslulíkan frá bandarísku alríkislögreglunni FBI í 9 liðum, samkvæmt aðferðarfræði Bandaríkjamannanna Fred Inbaud, John Reid og Joseph Bukcley. Bók þeirra, Criminal Interrogation and Confessions, er í dag í margra huga helsta kennslubókin í réttarmorði, samkvæmt blaðamönnum Plot.

Espen hefur sjálfur lesið sér mikið til um aðferðarfræði FBI og segist kannast við munstrið, sem rakið er hér til hliðar, frá eigin reynslu.

Yfirheyrslurnar með Stian Elle stóðu yfir frá morgni til kvölds í einn og hálfan mánuð. Verjandi hans fékk aldrei að vera viðstaddur. Espen fékk ekki að tala við nokkurn annan mann fyrsta mánuðinn, eða heyra frá fjölskyldu sinni, kærustu eða vinum.

Játaði en mundi samt ekkert og lögreglan laug

Á endanum skrifaði Espen undir játningu og lagði fram handskrifaða lýsingu á því hvar hann hitti frænku sína Birgitte og hvernig hann drap hana. Þrátt fyrir þetta var efinn enn til staðar hjá honum, eins og kemur fram í dagbók lögreglu eftir játninguna: „Honum er létt yfir því að þetta sé komið fram. Espen sagðist ekki muna neitt. Hann mundi ekki eftir neinu daginn eftir morðið og man ennþá ekki eftir neinu.“

Eftir játninguna fékk Espen að ræða við sálfræðing í fangelsinu og sagði við hann að það væri útilokað að hann hefði getað drepið Birgitte. Hann sárbað samt sálfræðinginn um að segja ekki orð um það við lögregluna, því hann óttaðist að vera varpað aftur í einangrun ef hann drægi játninguna til baka.

Í réttarhöldunum var Stian Elle spurður hvort hann hefði lagt leiðandi spurningar fyrir Espen í yfirheyrslunum. Elle neitaði því. Þetta hafði mikil áhrif á Espen, sem fram til þess hafði allan tímann haft mikið traust á lögreglunni. Nú sá hann lögregluna vísvitandi segja ósatt.

„Lögreglan er ein af stoðum samfélagsins sem þú hefur lært að stóla á. Hér sat lögreglumaður í vitnastúkunni og laug eiðsvarinn. Það var mjög sterk upplifun,“ segir Espen í viðtalinu við Plot. Hann var dæmdur í 14 ára fangelsi, en ákvað að berjast gegn kerfinu.

Mannréttindi brotin

Mál Espens var tekið fyrir á efra dómstigi ári síðar, 1998. Við áfrýjunina bar Gísli Guðjónsson vitni sem sérfræðingur skipaður af réttinum. Hann taldi játningu Espens falska. Eftir að öll sönnunargögnin höfðu verið lögð fram var Espen sýknaður af kviðdómi fyrir Lagmannsrett. Hann var þó áfram álitinn sekur að líkindum og dæmdur til að greiða fjölskyldu Birgitte bætur.

Þegar málið var rannsakað á ný síðar var Espen loks sýknaður á grundvelli DNA prófs. Árið 2001 voru honum ákvarðaðar bætur sem síðar voru hækkaðar enn frekar í hæstarétti Noregs 2003. Í millitíðinni komst mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á Espen við meðferð málsins.

Þess má geta að í Bandaríkjunum hafa 302 dómar verið ógiltir vegna DNA prófa frá árinu 1989, samkvæmt samtökunum Innocence Project. Í u.þ.b. 25% þessara mála höfðu sakborningarnir sagt eitthvað sem benti til sektar þeirra, játað á sig glæpinn eða lýst sig seka, þrátt fyrir að DNA próf sanni að þeir komu þar hvergi nærri. Dómarar virðast oft trúa játningum frekar en DNA prófum og eftir að játning er einu sinni komin fram er afar erfitt að draga hana til baka.

Margt líkt með máli Birgitte og Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

Gísli Guðjónsson er meðal höfunda hinnar nýju skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið og dregur þar fram ýmsan samanburð við Birgitte málið. Fram kemur t.d. að fölsk játning Espens virðist eiga margt skylt með játningu Guðjóns Skarphéðinssonar, sem dæmdur var fyrir aðild að hvarfi Guðmundar og Geirfinns.

Í báðum tilfellum var um að ræða unga menn, vel greinda og menntaða og ekki með neina undirliggjandi geðsjúkdóma. Lykilþættir við játningarnar voru félagsleg einangrun og langar og áhrifamikla yfirheyrslur þar sem smám saman var grafið undan trausti þeirra á eigin minni.

Guðjón og Espen voru báðir ákafir við að aðstoða lögregluna að leysa málið, báðir höfðu vantrú á eigin minni og urðu auðveldlega fyrir áhrifum af frásögnum og tillögum lögreglunnar. Hvorugur þeirra var sannfærður um sekt sína en þeir höfði ekki sjálfstætt minni til að staðfesta það eða hrekja það fyrir sjálfum sér.

Helsti munurinn á þessum málum er kannski sá að í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var einangrunar- og yfirheyrslutíminn margfalt lengri en í Birgitte-málinu og nánast fordæmalaus, samkvæmt Gísla.

Fær málið ekki tekið upp aftur

Rannsóknarlögreglumaðurinn Rachlew segir að útgangspunktur norsku lögreglunnar í Birgitte-málinu hafi verið að hinn grunaði væri sekur. Það var aldrei rannsakað hvort hann gæti verið saklaus. Lögreglan hundsaði upplýsingar sem pössuðu ekki inn í þá mynd sem þeir höfðu gert sér af málinu og hinum grunaða áður en yfirheyrslurnar hófust.

Espen var sýknaður á grundvelli falskrar játningar en nafn hans er ekki hreinsað. Hann hefur margsinnis reynt að fá málið endurupptekið fyrir norskum dómstólum, á þeim grundvelli að hann hafi verið beittur ólöglegum yfirheyrslum og verið þvingaður til að játa, en það hefur ekki fengist.

Gísli Guðjónsson, prófessor réttarsálfræði við King's College í London, er …
Gísli Guðjónsson, prófessor réttarsálfræði við King's College í London, er frumkvöðull í rannsókn á eðli falskra játninga. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Forsíða nýjasta tölublaðs norska tímaritsins Plot, þar sem hin falska …
Forsíða nýjasta tölublaðs norska tímaritsins Plot, þar sem hin falska játning í Birgitte-málinu er krufin.
Áhrifa Gísla Guðjónssonar vegna Birgitte-málsins gætti m.a. í því hvernig …
Áhrifa Gísla Guðjónssonar vegna Birgitte-málsins gætti m.a. í því hvernig lögreglan nálgaðist Anders Behring Breivik í yfirheyrslum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert